fbpx

Annar fellibylurinn á tveimur vikum eykur neyð í Madagaskar

Heim / Fréttir / Annar fellibylurinn á tveimur vikum eykur neyð í Madagaskar

Mikil neyð ríkir í Madagaskar eftir að fellibylurinn Batsirai reið yfir eyjuna fyrir viku síðan. Þetta er annar fellibylurinn sem skellur á landinu á innan við tveimur vikum.

Fellibylurinn olli miklu tjóni á eignum, innviðum og ræktarlandi á eyjunni, en um 77% íbúa landsins lifa þegar undir fátækramörkum. Sameinuðu þjóðirnar segja gríðarlega mikilvægt að koma matvælum, vistum og hreinlætisvörum til íbúa á hamfarasvæðinu, en fellibylurinn eyðilagði um 17 þúsund heimili og eiga um 120 þúsund íbúar í engin hús að venda.

Enn neyðarástand í Mósambík

Þann 24. janúar reið hitabeltisstormurinn Ana yfir suðaustur strönd Afríku og olli miklu tjóni í Mósambík, Madagaskar og Malaví. Mikil flóð fylgdu storminum sem lögðu híbýli, vegi og ræktarland í rúst.

38 létust í storminum í Mósambík og 207 særðust. Þá eyðilögðust 26 heilsugæslur í storminum, fjöldi rafmagnsstaura brotnuðu og um 25 vatnsból spilltust.

Stormurinn hafði gríðarleg áhrif á líf og heilsu um 200 þúsund íbúa, þar af um 5.000 óléttra kvenna sem þurfa nauðsynlega á áframhaldandi heilbrigðisþjónustu að halda. Til að bregðast við þörfinni hafa stofnanir Sameinuðu þjóðanna komið á fót heilsugæslum á hjólum sem reyna að sinna þörfum óléttra kvenna sem búsettar eru á hamfarasvæðunum sem hafa einangrast sökum flóða.

Þá hafa UN Women og UNFPA dreift sæmdarsettum til kvenna á hamfarasvæðum Mósambík. Þegar fólk hefur misst allt sitt í kjölfar náttúruhamfara er mikilvægt að geta tryggt konum sértæka neyðaraðstoð og hreinlætisvörur á borð við tíðarvörur, nærfatnað, sápu, tannkrem og tannbursta svo þær geti viðhaldið reisn og persónulegu hreinlæti.

Related Posts