„Það fyllir mig stolti að vera hluti af þessu starfi“

Home / Verkefnin / Afnám ofbeldis / „Það fyllir mig stolti að vera hluti af þessu starfi“
Imad Natour starfar innan fjölskyldudeildar palestínsku lögreglunnar þar sem hann sérhæfir sig í málefnum heimilisofbeldis. Einstaklingar sem þangað leita hljóta lögregluvernd, læknis- og lögfræðiaðstoð og tímabundið skjól. Deildin er rekin er í samstarfi við UN Women og fleiri félagasamtök. Imad settist nýlega aftur á skólabekk og stundar mastersnám í kynjafræði. Þar er hann eini karlkyns nemandinn.

Imad hefur unnið með þolendum ofbeldis í Ramallah og Tulkarem í átta ár. Þegar deildin tók fyrst til starfa var litið á heimilisofbeldi sem einkamál fólks; málefni sem ætti ekkert erindi út fyrir veggi heimilisins.

„Það fyllir mig stolti að vera hluti af þessu starfi og að geta veitt hjálp þegar heimilisofbeldi er annars vegar. Með tímanum höfum við lært að skilja veruleika og þarfir þeirra sem til okkar leita og höfum komið upp þolendavænu verklagi í kringum þessi mál í samstarfi við hin ýmsu félagasamtök. Sú samvinna hefur leitt til betri stuðnings við þolendur heimilisofbeldis.“

Hróður deildarinnar hefur borist víða og hlutfall þeirra sem leita sér hjálpar við heimilisofbeldi hækkar með degi hverjum. Natour segir lögregluna fá inn á borðr til sín um 7000 slík mál á ári.

„Í Tulkarem hitti ég oft þolendur sem við höfum stutt í gegnum erfiðleika og eru á betri stað í dag. Þeir hafa snúið aftur til vinnu og búa nú við öruggar aðstæður. Sum þeirra hafa jafnvel orðið virkir talsmenn í samfélaginu og hvetja aðra þolendur til að leita eftir stuðningi frá lögreglunni.“

Imad er einn þeirra fjölmörgu lögregluþjóna sem unnið hafa í samstarfi við UN Women sem hefur veitt fjölskyldudeild palestínsku lögreglunnar tæknilega og fjárhagslega aðstoð frá árinu 2012. Sú sýn og nýja nálgun sem UN Women hefur fært Natour í starfi hans varð hvati hans til að setjast aftur á skólabekk og hefja nám í kynjafræði.

„Mig dreymir um að Palestína verði í framtíðinni staður þar sem allir óháð kyni geti lifað með reisn og án ofbeldis eins og stjórnarskrá okkar kveður á um. Þangað til mun ég halda áfram að vinna í þágu þolenda ofbeldis, hjálpa þeim að leita réttlætis og tryggja að raddir þeirra heyrist,“ segir Natour að lokum.

Related Posts