fbpx

Stríð í Úkraínu: Starfsfólk UN Women í Úkraínu sjálft á flótta

Heim / Fréttir / Stríð í Úkraínu: Starfsfólk UN Women í Úkraínu sjálft á flótta
Úkraína Moldóva

Konur á flótta kölluðu sérstaklega eftir aðgengi að hjólastólum fyrir aldraða ættingja við komuna inn í Moldóvu.

Fulltrúar UN Women í Úkraínu og Moldóvu fara yfir stöðu mála og lýsa verkefnum stofnunarinnar í kjölfar stríðsins í Úkraínu.

UN Women og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru með starfstöðvar á 35 stöðum víða um Úkraínu. Skrifstofur Sþ voru smættaðar og færðar til svo tryggja mætti þjónustu og öryggi starfsmanna áfram. Nánast allt alþjóðlegt starfsfólk UN Women í Úkraínu hefur verið flutt burt úr landinu og til nágrannaríkja en um 30 innlendir starfsmenn hafa kosið að vera áfram og sinna störfum sínum undir gjörbreyttum aðstæðum. Flestir þessara starfsmanna eru konur með börn og hafa þau verið flutt til svæða Úkraínu sem teljast enn sem komið örugg.

Erika Kvapilova er fulltrúi UN Women í Úkraínu og segir hún stöðuna afar flókna. Töluvert hefur verið um að fólk snúi aftur til Úkraínu þrátt fyrir ótryggt ástand og viðvarandi átök. Ástæðurnar eru margþættar, en flestir snúa aftur heim vegna fjárhagserfiðleika og til þess að sameinast aftur fjölskyldu sinni.

„Staðan er flókin og aðstæður breytast dag frá degi. Starfsfólk UN Women í Úkraínu er sjálft á vergangi innan eigin ríkis (e. internally displaced person), þar sem þau þurftu að flýja heimili sín í kjölfar átakanna. Þau halda þó starfi sínu áfram þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður,“ útskýrir Erika.

Helsta þörfin núna, að hennar sögn, er að tryggja aukið fjármagn til frjálsra félagasamtaka sem sinna þörfum fólks á flótta og jaðarsettra hópa í Úkraínu.

 

Verið að rannsaka nauðganir sem stríðsvopn

Erika, UN Women Úkraína

Erika Kvapilova, hjá UN Women í Úkraínu.

Á síðustu vikum hafa hryllilegar sögur borist um að rússneskir hermenn nauðgi úkraínskum konum og að verið sé að beita nauðgunum markvisst sem stríðsvopni.

Aðspurð hvort verið sé að bregðast við slíkum tilkynningum, segir Erika að sérstök nefnd á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (HRC) og embætti mannréttindafulltrúa Sþ séu að rannsaka tilkynningar um slíka glæpi. Mannréttindaráðið hafi nú þegar 75 tilkynningar til rannsóknar.

„Rannsókn slíkra mála heyrir ekki undir UN Women. Við aftur á móti tryggjum þolendum viðeigandi aðstoð og sjáum til þess að stofnanir, félagasamtök og stjórnvöld séu meðvituð um hvernig eigi að meðhöndla slík mál; hvert eigi að beina þeim og hvernig eigi að tikynna þau. Þá höfum við barist fyrir því að öryggisgæsla sé aukin, í von um að tryggja öryggi kvenna og stúlkna. Við höfum jafnframt gert samstarfssamning við samtök lögfræðinga sem munu sjá um að reka þessi mál fyrir hönd þolenda.“

Erika segir eitt mikilvægasta verkefni UN Women núna sé að styðja með öllum ráðum við frjáls félagasamtök sem enn eru við störf í Úkraínu, m.a. við kvennaathvörf og gistiskýli fyrir heimilislausar konur.“

Mikilvægast að halda félagasamtökum gangandi

Erika bendir á að þarfir kvenna í Úkraínu séu ólíkar eftir landssvæðum. Í austurhluta landsins, þar sem átökin eru hvað hörðust, þurfa konur á brýnni neyðaraðstoð að halda. Á öðrum svæðum sé áhersla lögð á að tryggja konum á flótta húsnæði og fjárhagslegan stuðning.

„Í austurhluta landsins, þar sem átökin eru hvað verst, liggur mest á að koma neyðaraðstoð til kvenna og fjölskyldna þeirra, þ.m.t. mat, vatni, lyfjum, hreinlætisvörum og öðrum nauðsynjum.
Staðan er allt önnur í vesturhluta landsins og verkefnin miða frekar að því að sinna flóttafólki; finna þeim húsnæði, veita þeim fjárhagslega aðstoð, heilbrigðisþjónustu, lögfræðiþjónustu og áfallahjálp ásamt því að aðstoða þau við atvinnuleit og koma börnum í skóla.
Önnur mikilvæg verkefni eru að ná til viðvkæmra hópa, t.d. fólk með fatlanir, Róma fólk og heimilislausa og finna viðunandi húsnæði fyrir þau. Svo eru það konur með HIV, sem þurfa nauðsynlega á lyfjum sínum að halda en hafa ekki fengið.“

Vantaði nærföt og hjólastóla

Dominika Stojanoska, fulltrúi UN Women í Moldóvu, segir starfsfólk sitt hafa þurft að læra hratt og bregðast enn hraðar við þeim mikla fjölda fólks sem leitað hefur yfir landamærin til Moldóvu. Hún segir að UN Women í Moldóvu hafi ekki áður sinnt neyðarverkefnum sem þessum, heldur aðallega einblínt á að efla þjónustu og réttindi við konur í Moldóvu.

Dominika Stojanoska

Dominika Stojanoska, lengst til hægri, ásamt Simu Bahous, framkvæmdastýru UN Women.

„Okkar fyrst verk var að fara í ítarlega þarfagreiningu, því það er ómögulegt að bregðast við þörfum kvenna á flótta án þess að vita hverjar þær eru. Næst komum við á laggirnar svokölluðu ‚gender task force‘ sem sér um að samræma störf allra er koma að móttöku flóttafólks frá Úkraínu með tilliti til sértækra þarfa kvenna.“

Við þarfagreininguna kom í ljós að konurnar þurfu helst á nærfatnaði og inniskóm að halda. Þær óskuðu jafnframt eftir aðstoð við húsnæðis- og atvinnuleit svo þær gætu séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

„Annað sem þarfagreiningin leiddi í ljós var að það vantaði hjólastóla við landamærin. Konurnar sem komu yfir landamærin til Moldóvu voru ýmist með aldraða fjölskyldumeðlimi eða börn sín með sér, stundum bæði. Gamla fólkið gat ekki staðið í röð á meðan beðið var eftir úrvinnslu mála þeirra, það þurfti hjólastóla.“

Komast ekki burt úr bráðabirgðaskýlum

Dominika segir UN Women í Moldóvu framkvæma reglulegar þarfagreiningar meðal úkraínskra kvenna á flótta. Sökum húsnæðisskorts í Moldóvu hefur reynst erfitt að flytja konurnar úr bráðabirgðaskýlum og í framtíðarhúsnæði. Sumar fjölskyldur hafa því dvalið í bráðabirgðaskýlum í þrjár vikur við óunandi aðstæður.

„Skýlin voru hugsuð sem fyrsta stopp og aðeins til 72 tíma á meðan unnið væri að því að finna varanlegt húsnæði. En vegna þess fjölda sem hingað hefur leitað og húsnæðisskorts í Moldóvu hefur það reynst erfitt. Sumar fjölskyldurnar hafa því búið í þessum skýlum í allt að þrjár vikur. Konurnar hafa óskað eftir gardínum svo þær fái meira næði og nú er verið að bregðast við því.“

Að sögn Eriku, óska konurnar helst eftir því að börn þeirra hljóti skólavist sem fyrst svo þau geti haldið áfram námi. Einnig vilja þær geta unnið fyrir sér.

UN Women heldur áfram að veita kvenmiðaða neyðaraðstoð til kvenna sem flúið hafa stríðið í Úkraínu. Þú getur hjálpað með því að senda sms-ið KONUR í  númerið 1900 (1.900 kr).

Related Posts
Náðir þú að pakkaJemen