fbpx

Stjórnvöld bregðast við athugasemdum UN Women á Íslandi

Heim / Fréttir / Stjórnvöld bregðast við athugasemdum UN Women á Íslandi

Mikilvægt er að tryggja öryggi kvenna á flótta.

UN Women á Íslandi sendi frá sér yfirlýsingu þann 13. maí um ófullnægjandi aðbúnað fólks á flótta sem dvelur í úrræði stjórnvalda á Ásbrú.

UN Women á Íslandi gagnrýndu meðal annars algjöran skort á túlkum og slæmri upplýsingamiðlun, takmarkaðri öryggisvörslu, að karlar og konur deildu sameiginlegum rýmum og skorti á nauðsynjavörum á borð við bleiur, tíðarvörur og salernispappír. Konur sem flúið höfðu stríðið í Úkraínu til Íslands, sögðust upplifa gríðarlegan vanmátt, hræðslu og óöryggi við komuna að Ásbrú.

UN Women á Íslandi áttu fund með konum búsettum að Ásbrú og skilaði í kjölfarið inn tillögum að úrbótum til stjórnvalda. Keflavíkurkirkja sendi einnig inn athugasemdir og var Rauði kross Íslands í kjölfarið fenginn til að gera úttekt á aðstæðum fólks á Ásbrú.

Brugðust strax við

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið brást skjótt við athugasemdum UN Women á Íslandi, gerði samanburð á athugasemdum og úttekt og vann því næst tímasetta úrbótaráætlun í 37 liðum. Úrbótaráætlunin nær jafnt til stórra sem smárra atriða. Nokkrar úrbætur voru framkvæmdar tafarlaust, s.s. að koma upp öryggismyndavélum og að kynjaskipta rýmum. Þá var öryggisgæsla bætt og upplýsingamiðlun einnig.

Samkvæmt upplýsingum UN Women á Íslandi hafa þessar skjótu úrbætur stjórnvalda bætt líðan og öryggi kvenna og barna sem dvelja á Ásbrú til muna. Það er von UN Women á Íslandi að áframhaldandi úrbætur verði til þess að tryggja öryggi og heilsu íbúanna á Ásbrú enn frekar.

UN Women á Íslandi mun fylgjast með framvindu mála og halda áfram samtali um hvernig samtökin geti mögulega komið enn frekar að fræðslu í þessum málaflokki í gegnum félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.

Related Posts
UN Women, Iryna, Guðni