fbpx

Yfirlýsing frá UN Women á Íslandi vegna óboðlegra aðstæðna flóttafólks

Heim / Fréttir / Yfirlýsing frá UN Women á Íslandi vegna óboðlegra aðstæðna flóttafólks
Úkraína, neyðarskýli

Neyðarskýli fyrir konur og börn var komið á fót í leikhúsi í Lviv.

UN Women á Íslandi hafa borist til eyrna þungar áhyggjur fólks af aðbúnaði og aðstæðum einstaklinga sem hingað hafa leitað að skjóli og eru hluti af búsetuúrræði Útlendingastofnunnar á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Það virðist vera að íslensk stjórnvöld séu að vanrækja alvarlega skyldur sínar þegar það kemur að því að tryggja öryggi og vernd kvenna og stúlkna á flótta. UN Women hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að tryggja kvenmiðaða neyðaraðstoð og hafa í huga sértækar þarfir kvenna á flótta í hvívetna.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem UN Women á Íslandi hafa undir höndum eru aðstæður á Ásbrú með öllu óviðunandi. Eldhúsin eru tóm, það vantar leirtau, potta og pönnur og engin rúmföt á staðnum. Ungar stúlkur eru að flýja á milli herbergja og jafnvel út úr húsinu vegna áforma stjórnvalda um að bæta ókunnugum herbergisfélögum í herbergi þeirra. Umsjónarmenn hafa verið að birtast fyrirvaralaust inn í herbergin til að kanna aðstæður fyrir nýja og ókunnuga herbergisfélaga.

Öllum er blandað saman og ekki virðist vera kynjaskipting á milli húsa eða hæða. Konur og börn eru þannig í næsta herbergi við ókunnuga karlmenn. Strangar reglur eru á svæðinu um heimsóknir – til að vernda öryggi íbúa, en á sama tíma hamlar það eftirliti óháðra aðila til að kanna hvort aðbúnaður sé viðeigandi og verklag í lagi.

Íslensk stjórnvöld ekki að tryggja öryggi kvenna

UN Women lýsa yfir þungum áhyggjum af þeim fregnum sem samtökunum hefur borist. Ljóst er að íslensk stjórnvöld eru ekki að tryggja með fullnægjandi hætti að tekið sé mið af berskjöldun kvenna á flótta hvað varðar herbergisskipan og salernisaðstöðu. Allar rannsóknir sýna að staða kvenna á flótta er sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölbreyttri mismunun og aukinni áhættu á kynbundnu ofbeldi.

Alltof oft gleymast þarfir kvenna þegar neyðaraðstoð er veitt og ítreka UN Women á Íslandi mikilvægi þess að tryggja einfalda hluti á borð við staðsetningu og kynjaskiptingu salernis- og þvottaaðstöðu og viðunandi öryggisgæslu á öllum tímum sólarhrings. Sameiginleg salernisaðstaða eykur líkur á kynbundnu ofbeldi og það gera sameiginleg svefnrými einnig. Konur með ungbörn og börn á brjósti þurfa jafnframt afmörkuð rými til að geta sinnt börnum sínum í næði. Starfsfólk og öryggisverðir þurfa jafnframt að hljóta öfluga þjálfun í móttöku fólks á flótta og í því að greina hættumerki. Þá er gríðarlega mikilvægt að starfsfólk sé af öllum kynjum til að tryggja öryggi enn frekar.

UN Women kallar eftir tafarlausum úrbótum

UN Women á Íslandi kalla eftir tafarlausurm viðbrögðum og úrbótum íslenskra stjórnvalda þegar kemur að aðbúnaði og aðstæðum fólks á flótta og skiptir þá engu hvort úrræðið séu hugsað til langs eða skamms tíma. UN Women á Íslandi biðla til íslenskra stjórnvalda að tryggja að sértækar þarfir kvenna á flótta séu hafðar að leiðarljósi í öllu skipulagi og í öllum ákvarðanatökum í þessum mikilvæga málaflokki. UN Women á Íslandi eru boðin og búin til að eiga fundi og fræða um nauðsyn kvenmiðaðrar neyðaraðstoðar og benda jafnframt á fræðslusíðu um málefnið www.unwomen.is/neydaradstod. Við munum fylgja þessum ábendingum fast eftir og eiga fund með konum og stúlkum sem nú dvelja á Ásbrú í byrjun næstu viku.

Það dugar skammt að benda á illgresi annarra landa þegar það kemur að flóttamannabúðum og móttöku viðkvæmra hópa – þegar okkar eigin garður er ekki ræktaður á viðunandi hátt.

Virðingarfyllst,
f.h. UN Women á Íslandi

Stella Samúelsdóttir,
framkvæmdastýra

Related Posts
Sima Sami Bahous, UN Women