fbpx

Yfirlýsing frá Simu Bahous um stöðuna í Afganistan

Heim / Fréttir / Yfirlýsing frá Simu Bahous um stöðuna í Afganistan
Sima Sami Bahous, UN Women

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, gagnrýnir ákvörðun talíbana um að hefta réttindi afganskra kvenna enn frekar.

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, lýsir yfir áhyggjum af ákvörðun talíbanastjórnarinnar í Afganistan um að takmarka frelsi afganskra kvenna enn frekar. Á laugardag tilkynnti talíbanastjórnin að afganskar konur væru nú skyldugar til að hylja andlit sín á almannafæri.

Síðan talíbanar hrifsuðu til sín völd í landinu í ágúst í fyrra, hafa grundvallarmannréttindi kvenna verið skert. Konum er að mestu meinað að stunda vinnu, ferðast einar, sækja skóla og búa við skert lagaleg- og fjárhagsleg réttindi.

„Rétturinn til að ferðast telst til grundvallarmannréttinda og er forsenda þess að konur geti nýtt til fullnustu önnur réttindi sín. Í samfélögum þar sem konur búa við skert réttindi, er samfélaginu sem heild settar skorður. Ekki er hægt að líta á nýjustu ákvörðun talíbana sem annað en enn eina árásina á réttindi kvenna og stúlkna,“ segir í yfirlýsingu Bahous.

Hvetur talíbana til að standa við loforðin

„Þessi brot á mannréttindum kvenna og stúlkna kostar Afganistan ríkulega og aftrar efnahagslegri framþróun í landinu. Áætlað er að Afganistan verði af 1 milljarði bandaríkjadala, eða um 5% af þjóðarframleiðslu, með núverandi hömlum á atvinnuþátttöku kvenna. Meirihluti þjóðarinnar býr við sárafátækt, meira en helmingur þarf á brýnni mannúðaraðstoð að halda og heil kynslóð mun alast upp við fæðuóöryggi og hungur. Frekari takmarkanir á réttindum kvenna mun aðeins aftra enduruppbyggingu landsins.

UN Women tekur undir orð framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og hvetur talíbanastjórnina til að standa við gefin loforð hvað varðar réttindi afganskra kvenna. Við hvetjum stjórnina til að veita konum aftur ferðafrelsi sitt og réttinn til vinnu og náms.“

Síðan talíbanar komust til valda hefur afgönskum konum verið bannað að sækja vinnu, nema í undantekningartilfellum, líkt og í heilbrigðisþjónustu. Stúlkur fá ekki að sækja framhaldsmenntun og konur mega ekki keyra, nota almenningssamgöngur eða fara á milli staða án fylgdar karlkyns ættingja. Slíkar hömlur aftra konum frá því að afla sér tekna, stunda nám eða flýja heimili sín séu þær beittar ofbeldi. Um 90% afganskra kvenna hefur upplifað ofbeldi af hálfu maka einhverntíman á lífsleiðinni og óttast er að sú tala hafi hækkað í kjölfar COVID-19 og þeirrar sárafátæktar sem nú ríkir í landinu.

Lestu nánar um verkefni UN Women í Afganistan hér.

Related Posts
Úkraína, neyðarskýli