fbpx

Kynslóð jafnréttis: Ef þú hefur ekki fjárhagslegt sjálfstæði, hvað hefur þú þá?

Heim / Fréttir / Kynslóð jafnréttis: Ef þú hefur ekki fjárhagslegt sjálfstæði, hvað hefur þú þá?

Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktor í kynjafræði, hefur sérhæft sig í kynjuðum fjármálum. Kynjuð fjármál er femínísk aðferðafræði sem nýtist við stefnumótun og ákvarðanatöku um ráðstöfun opinberra fjármuna í þeim tilgangi að auka jafnrétti. Finnborg Salome er jafnframt einn aðstandenda félagsins Femínísk fjármál sem hefur það markmið að efla vitund almennings um kynjuð fjármál en einnig veita yfirvöldum aðhald í þeim efnum.

Spurð út í hugtakið jafnrétti, segir Finnborg Salome það ekki aðeins vera jöfn tækifæri, heldur líka jöfn útkoma fyrir alla.

„Jafnrétti er réttlæti, kvenfrelsi og samfélag þar sem við búum ekki við óttann við kynbundið ofbeldi eða jaðarsetningu ákveðinna hópa. Á Íslandi höfum við lagalegt jafnrétti, við eigum mjög góða lagabálka sem undirbyggja kynjajafnrétti, en það er enn mjög langt í land. Þegur við erum farin að brjóta niður hugmyndir um karlmennsku, kvenleika og gangkynhneigð, þá held ég að við séum farin að stíga skref í rétta átt að jafnrétti,“ útskýrir hún.

Tólin komu frá kynjafræðinni

Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktor í kynjafræði, hefur sérhæft sig í kynjuðum fjármálum.

Finnborg Salome ólst upp í stórum systkinahópi þar sem hún var lengi eina stelpan á heimilinu. Hún segist snemma hafa upplifað óréttæti á eigin skinni hvað varðar hlutverk drengja og stúlkna.

Innt eftir því hvort eitthvað eitt tiltekið atvik í hennar lífi hafi fengið hana til að endurhugsa hugmyndir sínar um jafnrétti, segir hún kynjafræðina hafa veitt henni tólin til að skilja reynslu sína betur, þar með talið óréttlætið sem hún varð vitni að í æsku.

„Árið 2006 er mér bent á námskeið í kynjafræði í Háskólanum og þá fékk ég tæki og tól til að skilja reynslu mína, upplifun og heiminn. Þetta hafði það mikil áhrif á mig að nú er ég komin með doktorspróf í kynjafræði og starfa við rannsóknir og kennslu á þessu sviði,“ segir Finnborg Salome og hlær.

Hvað telur þú að þurfi til svo að jafnrétti náist?
„Eins og segir í kynjafræðinni, þá er formlegt jafnréttisstarf eins og þrífættur stóll; við þurfum lögin, en við þurfum líka að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið út í alla stefnumótun og ákvarðanatöku og svo þurfum við sérstakar aðgerðir. Ég hef sérhæft mig í þessari samþættingu og þá sérstaklega því sem kallast kynjuð fjármál, sem er strategía til að stuðla að jafnrétti. Ef við leggjum áherslu á þetta, þá mundum við ná ansi langt að mínu mati.“

Viðhöldum status quo ef kynjasjónarmiðið skortir

Samkvæmt Finnborgu Salome ber stjórnvöldum lagaleg skylda til að vinna að kynjaðri fjárlagagerð.

Hún segir margar jákvæðar breytingar hafa orðið á síðustu árum og að kynja- og jafnréttissjónarmið séu nú meira áberandi í fjármálaáætlun og fjárlögum. Þetta megi rekja til þess að mikil þekking og færni er til staðar innan stjórnarráðsins til að draga fram þessi sjónarmið. Hinsvegar vanti enn upp á pólitísku ákvarðanatökuna, þ.e. að stjórnvöld bregðist við þessari þekkingu með því að forgangsraða fjármagni og aðgerðum til að stuðla enn frekar að janfrétti og jöfnuði.

„Við vitum að meirihluti kvenna verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni, við vitum að kvennastéttir eru vanmetnar miðað við karlastéttir og við vitum að það er mjög mikil ólaunuð vinnubyrgði á herðum kvenna. Við vitum hvar vandinn liggur og við höfum tólið sem kynjuð fjárlög eru til að stýra fjármagni svo hægt sé að breyta þessu. En það skortir sértæku aðgerðirnar, eins og að demba fjármagni í heilbrigðiskerfið, réttarvörslukerfið því hingað til hefur kerfið ekki verið þolendum í hag. Þegar við tökum ákvarðanir án þess að taka kynjasjónarmiðið inn í myndina, þá erum við að viðhalda „status quo“. Við getum jafnvel ýtt undir misrétti ef ákvarðanir eru ekki teknar út frá þessum sjónarmiðum,“ segir hún ákveðin.

Ef þú sem femínisti og fræðakona mættir ráðleggja eldri kynslóðum einhverju varðandi jafnrétti, hvað væri það?

„Ég er ekki hrifin af því að tala um kynslóðir í þessu samhengi, því sú þekking sem ég hef aflað mér kemur frá femínistum af eldri kynslóðum sem ruddu veginn fyrir okkur hin. Almennt mundi ég þó segja að eldri kynslóðir ættu að hlusta á hvað konur og jaðarsettir hópar eru að segja um sína upplifun, reynslu og veruleika. Það má ekki gera lítið úr því þegar konur lýsa reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi því það hefur verulegar afleiðingar, m.a. þær að konur hætta að treysta sér einar út á kvöldin. Þegar við erum farin að skerða ferðafrelsi kvenna á Íslandi, erum við þá raunverulega jöfn og búum við í alvöru í jafnréttisparadísinni Íslandi?“

Hugmyndir um framúrskarandi vísindamann nátengdar karlmennsku

Endurhugsa þarf hugmyndir okkar um hvað þyki framúrskarandi vísindamaður, að sögn Finnborgar.

Doktorsverkefni Finnborgar Salome, Að fylgja fénu: Kynjuð fjármál gegn kynjaslagsíðu háskóla í kjölfar markaðsvæðingar, fjallaði um fjárveitingar til evrópskra háskóla.

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á og öðlast dýpri skilning á því hvernig markaðsvæðing á þátt í að stuðla að og viðhalda kynjamisrétti í vísindasamfélaginu. Um leið vildi Finnborg Salome skapa þekkingu sem gæti gagnast við innleiðingu á kynjuðum fjármálum innan háskólasamfélagsins.

Innt eftir því hvort niðurstöðurnar úr rannsókninni hafi komið henni á óvart, viðurkennir Finnborg Salome að svo hafi verið, en tekur fram að tilgangur fræðamennsku sé að rannsaka og varpa ljósi á hindranir sem styðja við misrétti í þeirri von að stuðla að breytingum.

„Í ljósi þess að konur eru meirihluti þeirra er hafa útskrifast úr háskólum á Íslandi í næstum 40 ár, heldur maður að háskólinn sé jafnréttisparadís. En raunin er sú að karlar eru í meiri hluta þeirra er hljóta akademískar stöður og í stöðugildum prófessora. Rannsóknir mínar sýna að það eru þættir í háskólaumhverfinu sem ýta undir misrétti sem gerir það að verkum að framgangur kvenna er hægari en karla. Ytri þættir í samfélaginu, til dæmis ábyrgð á fjölskyldu og umönnun, hafa líka áhrif þar á.“

Hvernig er hægt að jafna hlut kvenna innan háskólans?

„Við þurfum að endurskoða hugmyndir okkar um hvað það er að vera framúrskarandi vísindamaður eða fræðafólk, en þær hugmyndir eru enn nátengdar karlmennsku,“ segir Finnborg Salome.

Mikilvægasta baráttumálið í jafnrétti kynjanna

Fjöldi verkefna UN Women á heimsvísu hafa það að markmiði að stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði kvenna með ýmsum leiðum, m.a. með fjárstyrkjum og þjálfun til að koma á fót eigin rekstri.

Mikilvægur hlekkur í að efla fjárhagslegt sjálfstæði kvenna er að vinna að lagabreytingum sem gera konum m.a. kleift að erfa eignir, eiga jarðir og opna bankareikninga. Mið-Austurlönd og ríki í Norður-Afríku og Suður-Asíu eru þau lönd þar sem lög er varða fjárhagslegt sjálfstæði kvenna eru hvað mest hamlandi.

Finnborg Salome segir að fjárhagslegt sjálfstæði sé grunnurinn að jafnrétti og kvenfrelsi.

„Ef þú ert ekki fjárhagslega sjálfstæður viðheldur það stöðu þinni sem undirokuðum aðila t.d. innan fjölskyldunnar. Ef við skoðum þetta út frá íslenskum aðstæðum, þá er fjárhagslegt sjálfstæði gífurlega mikilvægt til að komast út úr ofbeldissamböndum og aðstæðum sem ýta undir jaðarsetningu. Þannig það er ofboðslega mikilvægt að UN Women sé að leggja áherslu á þetta. Þetta er eitt mikilvægasta baráttumálið í jafnrétti kynjanna að mínu mati. Ef þú hefur ekki þetta frelsi, hvað þá? Hefurðu þá raunverulegt frelsi?“

Hvar stendur Ísland þegar kemur að kynjuðum fjárlögum og hvaða breytingar mundir þú vilja sjá strax í þeim efnum?

„Við stöndum ágætlega hér á landi. Það er bundið í lög að ríkisstjórnin eigi að vinna að kynjaðri fjárlagagerð. Það er verið að innleiða kynjuð fjármál hjá Reykjavíkurborg og þetta er í jafnréttisáætlun Háskóla Íslands, sem er mjög mikilvægt. Það sem vantar svolítið upp á er framkvæmdin, að það sé verið að vinna að kynjuðum fjármálum. Það er enn eitthvað sem stoppar í ákvarðanatökunni,“ segir Finnborg Salome og bætir við:

„Við sjáum enn gífurlegar kynjaskekkjur í því hvernig opinberum fjárveitingum er eytt. Það var vitað innan ráðuneytisins að fjárfestingaátak ríkisins í COVID-19 mundi skila sér frekar karla en kvenna, samt var þessi ákvörðun tekin. Afleiðingin af þessu er þetta kynjaða samfélag sem við búum enn við í dag, og þetta ýktist bara í COVID. Konur voru þreyttar fyrir en svo bættist við heimakennsla barna, umönnun ættingja og aukið álag á kvennastéttir. Hvað ætlum við að gera þegar allt þetta fólk brennur út? Af hverju er ekki verið að veita fjármálum í þetta?“

Kynin eru fleiri en tvö

UN Women sinnir málefnum hinsegin fólks fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna og hafa andstæðir pólar tekist á um þessa ákvörðun; Annar hópurinn segir að jafnrétti náist ekki nema allir hópar hljóti jafnan rétt og segja að réttindi jaðarsettra hópa séu of samofin kvenréttindum til að hægt sé að slíta þau í sundur; Hinir segja að með því að dreifa áherslunum svo víða verði slagkrafturinn í kvenréttindabaráttunni minni.

Finnborg Salome segir umræðuna afar áhugaverða og er sjálf þeirrar skoðunar að ef hagsmunir annarra hópa eru ekki teknir með sé aðeins verið að vinna að hag ákveðinna kvenna eða hópa.

„Við búum ekki aðeins við kynjaðan veruleika. Karlar og konur eru ekki tveir einsleitir hópar og kynin eru fleiri en tvö. Aðrir þættir en kyn hafa áhrif á stöðu fólks, t.d. stétt, húðlitur, tungumál og annað. Sé það ekki tekið með, þá erum við bara að segja hálfan sannleikann og aðeins að vinna að hag ákveðinna kvenna eða hópa.

„Mér finnst mjög mikilvægt að við samtvinnum kynjasjónamiðið við aðra valdaþætti í samfélaginu. En við getum ekki gert þá kröfu að allir séu alltaf að horfa á alla þætti sem hafa áhrif á stöðu okkar. Það hefur enginn orku í það, en við eigum alltaf eftir bestu getu að samtvinna þessa þætti að mínu mati.“

Viðtalið við Finnborgu Salome má horfa á í heild sinni hér að neðan.

Related Posts
Stella, Byko,