fbpx

Úganskar konur mega nú erfa eignir

Heim / Fréttir / Úganskar konur mega nú erfa eignir

ÚgandaUN Women og kvennahreyfingin í Úganda fagna því að hafa náð tveimur lagabreytingum í gegnum úganska þingið í vor.  

Annars vegar voru breytingar gerðar á lögum um erfðarétt, en þau höfðu fram að þessu mismunað erfingjum eftir kyni. Hins vegar voru samþykkt ný lög sem eiga að tryggja öryggi kvenna á vinnustað.

UN Women og grasrótarkvennasamtök í Úganda hafa barist fyrir þessum lagabreytingum í tæpa tvo áratugi. Mikilvægur þáttur starfs UN Women er að efla lagaleg réttindi kvenna. Það gerir UN Women með því að styðja við starf grasrótarsamtaka á hverjum stað fyrir sig, m.a. með fjárveitingum og tæknilegri aðstoð. Ástæðan fyrir því að UN Women kýs að starfa náið með grasrótarsamtökum er sú að þau búa yfir þekkingu á staðarháttum og hafa þegar greint þarfir kvenna og stúlkna.

 

Reknar burt af heimilum sínum

Ein þeirra kvennasamtaka í Úganda sem UN Women hefur unnið náið með heita Center for Domestic Violence Prevention. Framkvæmdarstýra samtakanna, Tina Musuy, segir gömlu lögin um erfðarétt hafa verið gloppótt.

„Í Úganda tíðkaðist það að arfleiða syni eða aðra karlkyns ættingja að jörðum og öðrum eignum. Fjöldi kvenna og stúlkna, sem ekki áttu fyrir pening, gátu því ekki eignast jarðir eða landskika. Oft voru ekkjur reknar burt af heimilum sínum eftir andlát eiginmanna þeirra. Það voru þeirra eigin fjölskyldur sem gerðu þær heimilislausar. Lagabreytingin tekur á þessari mismunun og nú standa konur og karlar jöfn fyrir lögum. Þessi breyting mun tryggja réttindi fjölda barna og kvenna og sýnir hversu miklu barátta öflugrar kvennahreyfingar getur skilað,“ segir Tina Musuy.

Hin lagabreyting sem samþykkt var af úganska þinginu kveður á um að atvinnurekendur tryggi öryggi kvenna á vinnustað. Lögin eiga að verja konur gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni á vinnustað.

Þau eiga einnig að tryggja öryggi og réttindi kvenna sem búa og starfa launalaust inni á heimilum fólks, en slíkt tíðkast víða í Úganda.

Nú þegar úganska þingið hefur samþykkt breytingarnar tekur við frekari vinna við að tryggja að nýju lögunum sé framfylgt. UN Women mun halda áfram að styðja við það starf. Í þeirri vinnu felst meðal annars að kynna lagabreytingarnar fyrir valdhöfum og íbúum landsins svo þeir þekki réttindi sín, tryggja að farið sé eftir lögunum og veita konum sem vilja sækja rétt sinn lagalega og fjárhagslega aðstoð.

Related Posts