fbpx

UN Women Íslandi og 66°Norður styðja við konur í Úkraínu

Heim / Fréttir / UN Women Íslandi og 66°Norður styðja við konur í Úkraínu
UN Women, Iryna, Guðni

Iryna Kamienieva afhendir Forseta Íslands bolinn. (f.v. Helgi Rúnar Óskarsson, Bjarney Harðardóttir, Stella Samúelsdóttir, Þórdís Claessen, Iryna Kamienieva, Guðni Th. Jóhannesson).

UN Women á Íslandi og 66°Norður hafa tekið höndum saman til að styðja við konur á flótta vegna innrásar Rússa í Úkraínu. UN Women er starfandi í Úkraínu og vinnur markvisst að því að tryggja að þarfir allra kvenna og stúlkna sé mætt.

UN Women á Íslandi og 66°Norður hafa hannað bol til stuðnings konum á flótta í Úkraínu. Allur ágóði af sölu bolsins rennur til verkefna UN Women í Úkraínu.

Aðstandendur átaksins afhentu forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni styrktarbol á Bessastöðum í dag á Bessastöðum þar sem verkefnið var kynnt.

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, og utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fengu jafnframt afhenta styrktarboli í Ráðherrabústaðinum við Tjarnargötu í dag.

Bolurinn er hannaður af Þórdísi Claessen og Iryna Kamienieva – Ірина Камєнєва, sem er nýkomin til Íslands frá Úkraínu. Styrktarbolurinn er samsettur af þjóðlegum Vyshyvanka mynstrum sem vernda gegn öllu illu fyrir þeim sem klæðist flíkinni og ljóði eftir úkraínsku skáldkonuna Lesia Ukrainka.

8 milljónir á flótta undan stríðinu

8 milljónir hafa flúið heimili sín frá því að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst þann 24. febrúar, þar af 6,7 til annarra ríkja Evrópu. 90% þeirra eru konur og börn, en karlmönnum á aldrinum 18 til 60 ára er meinað að yfirgefa landið.

Erika Kvapilova, fulltrúi UN Women í Úkraínu, segir að sérstök nefnd á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna rannsaki 75 tilkynningar um að nauðgunum hafi verið beitt sem stríðsvopni af rússneska hernum í Úkraínu.

UN Women í Úkraínu veitir þolendum viðeigandi aðstoð og vinnur að því að stofnanir, félagasamtök og úkraínsk stjórnvöld séu meðvituð um hvernig eigi að meðhöndla slík mál; hvert eigi að beina þeim og hvernig eigi að tilkynna þau.

Þá hefur UN Women í Úkraínu barist fyrir því að öryggisgæsla sé aukin, í von um að tryggja öryggi kvenna og stúlkna. Í þessu átaki UN Women og 66°Norður er lögð mikil áhersla á vitundarvakningu varðandi þarfir og nauðsynlegan stuðning við konur á flótta og mikilvægi þess að konur fái tækifæri að taka þátt í friðarviðræðum. Báðir aðilar eiga nú þegar í samstarfi í þágu kvenna varðandi stuðning við atvinnuþátttöku flóttakvenna í Tyrklandi.

Smellið hér til að kaupa bolinn.

Related Posts