fbpx

Stríð í Úkraínu: Einangruð frá umheiminum

Heim / Fréttir / Stríð í Úkraínu: Einangruð frá umheiminum
Alina, Úkraína

Alina Beskrovna ásamt föður sínum áður en stríðið í Úkraínu hófst.

Alina Beskrovna er á meðal þeirra sem urðu innilokuð í borginni Mariupol í austur Úkraínu vegna sprengjuárása Rússa. Hún dvaldi í heilan mánuð ofan í kjallara húss áður en henni tókst að flýja borgina þann 23. mars.

„Daginn sem innrásin hófst, yfirgaf ég íbúðina mína og leitaði skjóls í kjallara húss í úthverfi Mariupol. Fyrstu dagana leið mér eins og við værum í furðulegu náttfatapartýi. Við höfðum allt sem við þurftum … og svo ekki lengur.

Fyrst fór rafmagnið, þegar Rússar sprengdu rafkerfi borgarinnar. Tölvur og símar urðu fljótt batteríslaus eftir það.

Svo varð vatnsveita borgarinnar að skotmarki Rússa. Við fylltum allar þær fötur og ílát sem við fundum á meðan enn var vatn í krönunum. En vissum strax að skortur á drykkjarvatni yrði fljótt gríðarlegt vandamál.

Svo heyrðum við strórkostlega sprengingu einn daginn og við urðum gaslaus. Við neyddumst því til að leita að eldiviði og elda úti yfir opnum eldi.

 

Fólk stökk út í opinn dauðann

Eftir tvær vikur í felum, fór sprengjugnýrinn hækkandi og var ekki langt frá okkur. Tvö flugskeyti féllu á níu hæða íbúðablokk hinum megin við götuna. Fjórða hæðin varð strax alelda og við sáum fólk stökkva út úr brennandi húsinu í opinn dauðann.

Þegar flugskeytin lentu svo nærri okkur, fann maður hvernig höggbylgjurnar fóru upp með líkamanum. Það komu sprungur í veggina og gólfið í kjallaranum og við efuðumst um að húsið stæði þetta af sér.

 

Viljandi einangruð

Úkraína

Eyðileggingin í sumum borgum Úkraínu er gríðarleg.

Snemma í innrásinni var samskiptaturninn í Mariupol eyðilagður af Rússum. Við vissum hvers vegna það var gert: til að einangra okkur frá umheiminum, takmarka upplýsingar til okkar og þannig gera okkur bjargarlaus og úrkula vonar.

Ég missti sambandið við föður minn í kjölfarið. Hann var í hinum enda borgarinnar og ég veit ekki hvort ég muni nokkru sinni sjá hann aftur. Hann vissi hvar ég var í felum og ég vonaðist til að hann mundi dúkka upp einn daginn. Koma sér hingað til okkar. Ég veit ekki hvort hann sé lífs eða liðinn eða hvort hann hafi verið fluttur með valdi til Rússlands.

Fljótlega fóru orðrómar á kreik um að borgin væri á valdi Rússa. Við fengum sögur af tjétjénskum hermönnum ráfandi um götur borgarinnar að skjóta almenna borgara og nauðga konum. Enginn vogaði sér að gera tilraun til þess að komast burt. Vegna þess hve einangruð við vorum frá umheiminum, var vonlaust að verða sér úti um upplýsingar um það sem raunverulega var að eiga sér stað.

 

Óttaðist að verða nauðgað

Það var aðallega tvennt sem vakti með mér ótta. Ég óttaðist að verða nauðgað – við vitum að nauðgunum hefur verið beitt sem stríðsvopni af Rússum – og ég óttaðist að verða flutt nauðug til Rússlands eða Lýðveldisins Donetsk. Ég hafði líka áhyggjur af því að Mariupol yrði innlimað í Lýðveldið Donetsk og að ég mundi aldrei komast þaðan burt.

Ég hugsaði stöðugt um flótta og hvort hann væri yfirhöfuð mögulegur.

 

Þegar tækifærið kom

Þeir sem ekki komust burt úr borginni fyrstu dagana, urðu innikrógaðir sökum skotbardaga og sprengjuárása.

Þau sem létu reyna á flótta, áttuðu sig fljótlega á því að þau yrðu að fara í gegnum aktífan vígvöll til að komast burt.

Það eina í stöðunni var að bíða eftir skipulagðri rýmingu svæðisins. Á annarri viku stríðsins, breiddist út orðrómur á Telegram (rússneskt samfélagsmiðla forrit) um að bílalest yrði skipuð og mönnuð við leikhúsið í Mariupol, sem færi svo vestur til Manhush.

Hver sá sem hafði bíl til umráða og nægt bensín fyrir ferðalagið, merkti ökutækið með hvítum efnisbútum til að gefa í skyn að þar væru almennir borgarar á ferð, og söfnuðust við leikhúsið.

En þar var ekkert. Orðrómurinn var lygi.

Þann 20. mars höfðu Rússar hertekið landsvæðið við Azov haf, alla leið frá Berdyansk og að Manhush. Mariupol var umsetin.

Þremur dögum síðar ákváðum við að láta reyna á flótta, þrátt fyrir þá vitneskju að rússneskir hermenn væru að skjóta á almenna borgara og linnulaust sprengjuregn.

Ég hafði sjálf orðið vitni að því hvernig þeir gerðu íbúðarblokkir að skotmörkum, næstum eins og þeir væru að spila tölvuleik.

En matar- og vatnsbirgðir okkar voru að þrotnar. Ég hafði ekki baðað mig í mánuð.

 

Hræðilegt ferðalag

Klukkan 7:00 að morgni hins 23. mars lögðum við af stað í átt að Zaporizhzhia. Við þurftum að fara í gegnum 16 rússneskar eftirlitsstöðvar og ferðalag sem undir venjulegum kringumstæðum hefði tekið 3 klukkustundir, tók okkur nú 14 klukkutíma.

Ferðalagið var hræðilegt. Rússneskir hermenn létu okkur afklæðast og leituðu á okkur, gaumgæfðu skilríkin okkar og fangelsuðu alla karlmenn. Þegar við nálguðumst úkraínsku eftirlitsstöðina við Zaporizhzhia, heyrðum við loks aftur úkraínsku talaða.

Mér leið eins og ég væri komin í skjól. Mér fannst sem ég hefði skriðið út úr svartholi eyðileggingar og dauða. Þrátt fyrir það voru linnulausar loftárásir einnig í Zaporizhzhia, en við höfðum komist frá Mariupol á lífi.“

Related Posts
Stjórn 2022Náðir þú að pakka