Sóttvarnarpakki fyrir konur á flótta

Home / Fréttir / Sóttvarnarpakki fyrir konur á flótta

„Skert hreyfigeta var ekki mín eina hindrun. Að vera kona, stödd ein í flóttamannabúðum án alls stuðnings, bætti mjög á mína erfiðleika,“ segir Ibtisam Sayeed Ahmend, (40 ára) sem er ein af þeim fjölmörgu sýrlensku konum sem flúið hafa stríðið í Sýrlandi og hlotið valdeflingu á griðastöðum UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum. Þar dreifir UN Women nú sóttvarnarpökkum til kvenna í Covid-19 heimsfaraldrinum.

Í dag starfar Ibtisam á griðastöðum UN Women við að valdefla og hvetja konur, stúlkur og konur með fatlanir til að berjast fyrir réttindum sínum, ljúka námi og ná markmiðum sínum en sjálf á Ibtisam sögu.

„Líf mitt breyttist á einu augnabliki árið 2012 þegar sprengju var varpað á húsið mitt í Dar’aa í Sýrlandi. Augnablikssársauki varð að varanlegum sársauka. Ég þurfti að læra að ganga upp á nýtt, sættast við og venjast lífi mínu án annarrar handar, læra að sjá fyrir sjálfri mér og læra að lifa lífinu upp á nýtt.“

Hún flúði til Jórdaníu ásamt systur sinni. En á landamærunum skildust leiðir í miklu öngþveiti og átökum sem áttu sér þar stað. „Systir mín snéri því við og hélt aftur til Dar’aa. Þar lést hún þremur dögum síðar. Ég var því algjörlega ein í heiminum, í Jórdaníu.“

„Aldrei gefast upp þrátt fyrir áskoranir“

„Að vinna bug á öllum mínum erfiðleikum var virkileg erfitt. Skert hreyfigeta var ekki mín eina hindrun. Heldur verandi kona, stödd ein í flóttamannabúðum án alls stuðnings bætti mjög á mína erfiðleika. En mér tókst það! Ég tók einn dag í einu, eitt skref í einu og minnti mig stöðugt á að gefast ekki upp. Ég fékk svo launað starf á griðastað UN Women sem leiðbeinandi við kennslu og jafningjastuðning. Starfið hjá UN Women gerði mér kleift að sjá fyrir mér fjárhagslega og safna fyrir og greiða niður lækniskostnað“ segir Ahmend og bætir við „Að fá tækifæri til að valdefla sjálfa sig er lykillinn að því að komast yfir hindranir. Með því að valdefla sjálfa mig, fékk ég sjálfstraustið og kraftinn til að valdefla aðrar konur í svipuðum aðstæðum.“

Áður dreymdi hana um að verða lögfræðingur en segir að ljóst sé að sá draumur verði ekki að veruleika. „Aftur á móti það sem ég get látið mig dreyma um, er að stúlkur og ungt fólk fái tækifæri til að mennta sig og geti látið drauma sína rætast. Sagan mín er lifandi sönnun þeirra erfiðleika sem konur, sem og aðrir, með fatlanir eiga við. Ég vil deila minni sögu vegna allra þeirra sem eiga í sömu erfiðleikum.“

UN Women dreifir nú sóttvarnarpökkum til kvenna í Covid-19 heimsfaraldrinum. Þú getur keypt sóttvarnarpakka fyrir konu á flótta hér.
Related Posts