fbpx

Til hamingju frú Vigdís!

Heim / Fréttir / Til hamingju frú Vigdís!

Vigdís Finnbogadóttir fagnar 90 ára afmæli sínu þann 15. apríl og í júní verða 40 ár liðin frá sögulegu forsetakjöri hennar. Vigdís var fyrsta, og er enn eina konan sem gegnt hefur embætti forseta Íslands. Þá var hún fyrst kvenna á heimsvísu til að vera kosin forseti ríkis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Frá því að hún tók við embætti forseta Íslands og fram til dagsins í dag, er Vigdís líklega sú kona sem hefur mótað sjálfsmynd íslenskra kvenna hvað mest. Í tilefni 90 ára afmælis Vigdísar, lítum við stutt yfir ævi hennar og starfsferil.

Vigdís Finnbogadóttir fæddist 15 apríl árið 1930 og er dóttir Finnboga Rútar Þorvaldssonar, prófessors, og Sigríðar Eiríksdóttur, hjúkrunarfræðings og formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Mynd/Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Vigdís útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og hélt þá utan til Frakklands þar sem hún lagði stund á frönsku og franskar bókmenntir við háskólana í Grenoble og Sorbonne í París. Vigdís stundaði jafnframt nám í leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla og tók BA-próf í frönsku frá Háskóla Íslands og próf í uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla árið 1968. Á árunum fram að forsetakjöri sinnti Vigdís ýmsum störfum og starfaði m.a. við ritstjórn, frönskukennslu og sem leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur.

Vigdís tilkynnti framboð sitt til forseta Íslands þann 1. febrúar 1980. Auk hennar höfðu Albert Guðmundsson, Guðlaugur Þorvaldsson og Pétur J. Thorsteinsson gefið kost á sér í embættið. Við tók hörð kosningarbarátta þar sem Vigdís mætti allt öðru og heldur harðara viðmóti en meðframbjóðendur hennar. Kyn hennar, hjúskaparstaða og jafnvel veikindi hennar voru iðulega gerð að umræðuefni.

Mynd/Ari Magg

Þrátt fyrir ítrekaðar atlögur að persónu hennar og fjölskylduhögum var Vigdís kjörin forseti þann 29. júní 1980 og gegndi hún því embætti í alls fjögur kjörtímabil. Á sínu fyrsta tímabili rak hún sig á ýmsa veggi þar sem engar voru reglurnar um hvernig ætti að fara með konur sem gegndu einu æðsta embætti landsins. Þegar Vigdís lét af störfum sem forseti Íslands árið 1996, var þó farið að líta á hana sem eitt helsta sameiningartákn þjóðarinnar.

Við hjá UN Women á Íslandi óskum Frú Vigdísi Finnbogadóttur til hamingju með afmælisdaginn og þökkum henni fyrir ryðja brautina.

Við hvetjum öll þau sem vilja gefa Vigdísi gjöf í tilefni tímamótanna – að kynna sér Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur hér.
Related Posts