„Árangursríkasta leiðin til að draga úr fátækt“

Home / Fréttir / „Árangursríkasta leiðin til að draga úr fátækt“

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi // mynd: Saga Sig

Í dag hafa 15 milljónir stúlkna á grunnskólaaldri í heiminum ekki aðgang að menntun. Helmingi færri stúlkur en strákar fá tækifæri til að mennta sig. Þetta er sláandi staðreynd. Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, ræðir hér mikilvægi þess að samfélög tryggi stúlkum og konum menntun. Stella hefur víðtæka reynslu af alþjóðamálum og málefnum kvenna. Hún starfaði í fimm ár í Malaví á vegum íslenskra stjórnvalda, árin 2004-2009 auk þess sem hún starfaði hjá fastanefnd Íslands í New York 2010-2011. Í dag leiðir hún starf UN Women á Íslandi.

Hvernig blasti vandinn við þér þegar þú varst búsett í Malaví?

„Menntun stúlkna skiptir svo ótrúlega miklu máli. Hún hefur áhrif á allt annað og ræður úrslitum um framtíð þeirra og möguleika. Tíðni þvingaðra barnahjónabanda er mjög há í Malaví, en önnur hver kona hefur verið gift fyrir 18 ára aldur. Ein af hverjum átta stúlkum hefur verið gift fyrir 15 ára aldur.

Í Malaví eru mun færri konur en karlar sem geta lesið og skrifað en það aftrar þeim á öllum sviðum. Stúlkur eignast börn á barnsaldri sjálfar, geta fyrir vikið ekki hjálpað börnum sínum í námi og eru jafnvel þvingaðar í barnahjónaband. Þær upplifa óöryggi þar sem þær þurfa alfarið að treysta á góðvilja annarra, t.a.m. við  til að láta þýða fyrir sig bréf, segja sér hvert strætóinn sé að fara, lesa á lyf fyrir börnin sín og svo mætti lengi telja. Þær taka því síður þátt á opinberum vettvangi, eins og í stjórnmálum eða launaðri vinnu.

„Í Malaví eru mun færri konur en karlar sem geta lesið og skrifað en það aftrar þeim á öllum sviðum.“

Talið er að Malaví verði af stórum upphæðum ár hvert vegna þess hve margar stúlkur eru enn þvingaðar í barnahjónaband og festast í fátæktargildru. Menntun stúlkna er lykillinn, svo þær þekki eigin réttindi, ráði yfir eigin líkama og hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Allt þetta hjálpar mikið til við að leysa konur úr viðjum fátæktar svo þær geti hjálpað sér sjálfar og fjölskyldum sínum. Ótrúlega margt hefur áunnist á síðustu tíu árum en betur má ef duga skal.“

Malavískar stúlkur sem UN Women á Íslandi hittu við gerð sex stuttra heimildarmynda um þvinguð barnahjónabönd // mynd: Allan Sigurðsson

Hvernig dregur menntun kvenna úr fátækt?

„Menntun er árangursríkasta leiðin til að draga úr fátækt. Hún stuðlar að uppbyggingu samfélaga, dregur úr misrétti og valdeflir konur sem er öllum samfélögum til framdráttar. Aukin menntun stúlkna minnkar líkur á að konur giftist og eignist börn ungar. Þær eru líklegri til að ganga seinna í hjónaband og eignast færri börn sem aftur eru líklegri til að búa við betra heilsufar og ganga menntaveginn. Oft er sagt að ef þú menntar stúlku, menntar þú heila fjölskyldu, því konur leggja bæði áherslu á að börn sín gangi menntaveginn og geta um leið hjálpað börnum sínum við námið ef þær sjálfar eru menntaðar. Heilsufar kvenna sem hlotið hafa menntun er einnig mun betra. Aukin menntun stúlkna eykur atvinnumöguleika kvenna og þar með fjárhagslegt sjálfstæði sem þýðir að þær geta betur stjórnað eigin lífi. Með aukinni menntun og valdeflingu komast konur í fleiri valdastöður og hafa þar af leiðandi víðtækari áhrif og ákvörðunarvald í samfélaginu. Það má því segja að menntun kvenna eykur til muna aðgang þeirra að völdum og áhrifum í samfélaginu, sem skiptir okkur öll máli.“

Menntun er árangursríkasta leiðin til að draga úr fátækt. Hún stuðlar að uppbyggingu samfélaga, dregur úr misrétti og valdeflir konur sem er öllum samfélögum til framdráttar.

Stella segir númer eitt, tvö og þrjú að tryggja grundvallarréttindi kvenna og stúlkna til náms á forsendum kvenna og stúlkna. Hins vegar bendir hún á að það er ekki síður þjóðhagslega hagkvæmt. „Ef ójöfnuðurinn er skoðaður út frá fjárhagslegum forsendum þá verða ríki heims af $12 trilljónum bandaríkjadala á ári hverju vegna ójöfnuðar og ofbeldis í garð kvenna. Þetta eru engar smá tölur.“

Malavískar skólastúlkur // mynd: Allan Sigurðsson

Ójöfnuður heldur ekki einungis aftur af konum aftur, heldur mannkyninu í heild. Þess vegna er mikilvægt að breyta menningu og staðalímyndum um hlutverk karla og kvenna. Það má í raun segja að menntun stúlkna sé fjárfesting í hagvexti, heilbrigðara vinnuafli, langvarandi friði og framtíð jarðar. Ef konur hafa hvorki rödd né hljóta hljómgrunn förum við á mis við mikilvæga þekkingu kvenna. Loftslagsbreytingar bitna til dæmis hve verst á konum og stúlkum en á meðan þær hljóta ekki hljómgrunn missum við af dýrmætri þekkingu og lausnum kvenna á að takast á við vandann.“

Hvernig vinnur UN Women að bættu aðgengi kvenna og stúlkna að menntun?

„UN Women vinnur markvisst að því að stuðla að bættu aðgengi stúlkna að menntun og sporna gegn kynjamismunun innan kerfa sem utan. Með fræðslu að vopni vinnur UN Women að því að breyta viðhorfum sem aftrar konum við að sækja sér menntun, til dæmis hvað varðar ábyrgð kvenna varðandi ólaunuð heimilis-og umönnunarstörf, barnaþrælkun, þvinguð barnajónabönd og hreinlæti í kringum blæðingar.

Við hjá UN Women á Íslandi höfum lagt ríka áherslu á menntun stúlkna með herferðum og vitundarvakningum. Nálgast þarf baráttuna út frá heildrænni nálgun, aukin mannréttindi kvenna helst í hendur við að valdefla konur og stúlkur til áhrifa, í stjórnmálum, í atvinnulífinu, innan heimilanna sem og innan skólakerfa með fræðslu að vopni. Í nýjasta fræðslu- og fjáröflunarátaki okkar, RÚV þættinum Stúlka – ekki brúður, lögðum við áherslu á að uppræta þvinguð barnahjónabönd í Malaví þar sem sjónum var beint að því að koma stúlkum aftur í nám eftir að hafa verið leystar úr hjónabandi á barnsaldri.

Hin fjórtán ára gamla Violet var leyst úr þvinguðu barnahjónabandi og send aftur í skóla fyrir tilstilli UN Women. // mynd: Allan Sigurðsson

Fólk hér á landi hefur sýnt verkefnum UN Women gríðarlegan stuðning og hikar ekki við að láta fé að hendi rakna til að styðja við berskjaldaðar konur og stúlkur og ekki síst veita námsstyrki til stúlkna sem leystar hafa verið úr þvinguðum barnahjónaböndum. Undanfarna þrjá mánuði hafa landsmenn styrkt 1.286 stúlkur aftur til náms í Malaví. Þessi stuðningur er ómetanlegur og vil ég nota tækifærið og þakka landsmönnum kærlega fyrir stuðninginn.“

Þú getur tekið þátt í baráttunni fyrir bættu aðgengi stúlkna að menntun með því að gerast ljósberi UN Women. Þá geturðu einnig veitt stúlku sem leyst hefur verið úr þvinguðu barnahjónabandi námsgögn og skólabúning með kaupum á þessari gjöf.

Related Posts