Vodafone og UN Women endurnýja samstarf

Home / Verkefnin / Afnám ofbeldis / Vodafone og UN Women endurnýja samstarf

Samstarf síðustu þriggja ára hefur aflað 47 milljóna króna til verkefna UN Women

Stella Samúelsdóttir og Magnús Hafliðason, forstöðumaður markaðssviðs Vodafone.

Við hjá UN Women endurnýjuðum á dögunum samning um áframhaldandi samstarf við Vodafone um stuðning fyrirtækisins við Fokk Ofbeldi verkefnið en um er að ræða fjórða ár samstarfsins.  Á síðustu árum hefur verkefnið, með stuðningi Vodafone, aflað 47 milljóna króna til verkefna UN Women sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum í fátækari ríkjum heims

„Við fögnum því að undirrita fjórða samstarfssamninginn við Vodafone en ný FO vara til styrktar UN Women verður kynnt um miðjan ágúst. Við höfum fengið ótal fyrirspurnir um nýja FO húfu, það eina sem við segjum að svo stöddu er að nýi FO söluvarningurinn er ekki húfa. Um leið og við þökkum kaupendum FO húfunnar undanfarin ár viljum við hvetja alla til að fylgjast með í ágúst, kaupa varninginn og styðja um leið við baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi á fordæmalausum tímum þar sem ofbeldi gegn konum og stúlkum hefur aukist gríðarlega,“  segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Vodafone hefur verið helsti bakhjarl FO-herferða UN Women á Íslandi frá árinu 2016 og hafa frá upphafi greitt allan kostnað við framleiðslu húfanna ásamt því að styðja við markaðsstarf verkefnisins. Allur ágóði af sölu FO-varnings rennur í styrktar sjóð Sameinuðu Þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.

„Það er okkur sannur heiður að endurnýja þetta frábæra samstarf við UN Women og hlökkum við til þess að leggja þessu einstaka verkefni lið áfram. Það er mikill metnaður hjá UN Women eins og árangur síðustu ára sýnir en söluvarningur þessa árs er sérstaklega spennandi og treystum því að landsmenn taki verkefninu fagnandi í ár líkt og síðustu ár.“ segir Magnús Hafliðason, forstöðumaður samskipta- og markaðsmála Vodafone.

 „Við hjá UN Women á Íslandi þökkum Vodafone sérstaklega fyrir að standa straum af kostnaði við framleiðslu FO söluvarningsins og fagnar þeim flottu skrefum sem Vodafone stígur í þessu samstarfi hvað varðar samfélagslega ábyrgð. Með stuðningi sínum við UN Women sýnir Vodafone frábært fordæmi fyrir önnur fyrirtæki að sýna samfélagslega ábyrgð í verki. En án framlags Vodafone gætum við hjá UN Women á Íslandi aldrei náð að senda svo hátt fjárframlag“ segir Stella.

Related Posts