Umsögn UN Women á Íslandi

Home / Fréttir / Umsögn UN Women á Íslandi

UN Women á Íslandi fagnar tillögu forsætisráðuneytisins um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og lýsir um leið yfir stuðningi við þau sjónarmið og forvarnir sem settar eru fram í áætluninni.

UN Women á Íslandi vill koma á framfæri þremur athugasemdum:

  1. Í tillögunni er mikið lagt upp úr fræðslu til allra þeirra sem starfa með börnum, sem er vel. Hins vegar vantar að nefna sérstaklega foreldrafræðslu en foreldrar gegna veigamiklu hlutverki í allri forvarnarvinnu. Mikilvægt er að ná til þess hóps með aukinni fræðslu svo að árangur verði sem bestur og að öll fræðsla tali saman.
  2. Í kafla A7 er lögð áhersla á fræðsluátak um vernd kynferðislegrar friðhelgi sem er vel, hins vegar eru fjármunir sem fylgja þeirri vinnu mjög af skornum skammti. Við fáum ekki séð hvernig 2 milljónir á árunum 2023-2024 eigi að ná utan um þá gríðarlegu vinnu sem svona átak krefst ef vel á að vera og ná til þeirra hópa sem skilgreindir eru.
  3. Í kafla D6 er fjallað um eflingu kynjafræðikennslu og áætlað í hana 1 milljón króna. Hér vildum við sjá sterkari orðanotkun og hvetja til þess að gera kynjafræði að skyldufagi í framhaldsskólum með vísan til grunnþáttar aðalnámskrár framhaldsskóla um kynjajafnrétti. Auk þess hefur Samband íslenskra framhaldsskólanema ítrekað kallað eftir að kynjafræði verði skyldufag í skólum. Byggt á upplýsingum sem okkur hefur borist er mikil þörf á fræðslu og eykst sífellt.

Fyrir hönd UN Women á Íslandi.

Stella Samúelsdóttir
Framkvæmdastýra

Related Posts