Pekingsáttmálinn ítrekaður og staðfestur á ný

Home / Fréttir / Pekingsáttmálinn ítrekaður og staðfestur á ný

Þessi pólitíska yfirlýsing var samþykkt í dag á upphafsdegi 64. Kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna (CSW64). Þema fundarins í ár stöðumat á réttindum kvenna 25 árum eftir samþykkt Peking-sáttmálans. Vanalega er gefin út pólitísk yfirlýsing í lok fundar en í ár liggur fyrir samkvæmt úttektum og stöðumati á stöðu kvenna og stúlkna gagnvart Peking-sáttmálanum, að markmiðum sáttmálans hafi ekki verið náð. Auk þess virðist sem Heimsmarkmiðum SÞ verði ekki náð ef hraði framfara í þágu kynjajafnréttis og réttinda kvenna helst óbreyttur.

Um leið og leiðtogar aðildarríkja SÞ endurstaðfesta og ítreka pólitískan vilja til breytinga, viðurkenna þeir um leið nýjar áskoranir við að jafna stöðu kvenna og stúlkna sem krefjast öflugra aðgerða og samstillts átaks ríkjanna, sérstaklega þegar kemur að:

  • Gera öllum stúlkum og konum kleift að mennta sig, með sérstöku tillliti til iðn- og tæknigreina
  • Tryggja konum og stúlkum jafna og raunverulega þátttöku til áhrifa og valda á öllum stigum og sviðum samfélagsins
  • Tryggja konum efnahagslega valdeflingu, t.a.m. jöfn atvinnutækifæri, jöfn laun, félagslegt öryggi og lánshæfi.
  • Takast raunverulega á við misskiptingu á ólaunuðum umönnunar- og heimilisstörfum sem konur og stúlkur sinna í mun meiri mæli
  • Takast raunverulega á þeim misskiptu áhrifum sem loftslagsbreytingar og náttúruhamfarir hafa á konur og stúlkur
  • Afnema skaðlega siði og ofbeldi gegn konum og stúlkum
  • Vernda konur og stúlkur í vopnuðum átökum og tryggja aðkomu kvenna í friðarviðræðum og málamiðlunum.
  • Viðurkenna rétt kvenna og stúlkna til að hljóta heilbrigðisþjónustu
  • Takast á við hungur og vannæringu kvenna og stúlkna.

Þar að auki lýstu ríkin yfir að útrýma lögum sem mismuna konum og stúlkum með einhverjum hætti, brjóta niður kerfislægar hindranir sem konur verða í vegi innan kerfa, félagsleg norm sem mismuna konum og stúlkum á einhvern hátt sem og brjóta á bak staðlaðar ímyndir kynjanna sem hindra framgang kvenna og stúlkna, m.a. í fjölmiðlum. Að sama skapi, auka fjármuni til þessa málaflokks, styrkja stofnanir sem vinna að því að auka réttindi kvenna og stúlkna, nýta þá tækni og nýsköpun sem fyrir er til að bæta lífkjör kvenna og stúlkna. Einnig safna gögnum, kortleggja mismunun gegn konum og stúlkum og nota tölfræðina til að brjóta niður kynbundna mismunun auk þess að styrkja alþjóðlegt samstarf til að koma á raunverulegu jafnrétti. Lesa nánar hér.

Þess ber að geta, vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar, er Kvennanefndarfundurinn haldinn í New York með óvenju smáu sniði. Fastanefndir ríkjanna ásamt á kvennasamtökum, staðsettum í New York taka þátt í fundinum í ár.

Related Posts