Þýðingarmikil tímamót árið 2019

Home / Fréttir / Þýðingarmikil tímamót árið 2019

Árið 2020 verður viðburðaríkt jafnréttisár og verðum við minnt rækilega á að réttindi kvenna hafa ekki þróast af sjálfu sér. Við munum fagna því að 25 ár verða liðin frá því að Pekingsáttmálinn var settur fram og samþykktur. Peking sáttmálinn er framsækin áætlun í tólf flokkum sem miðar að því að bæta hag og réttindi kvenna og stúlkna. Enn er sáttmálinn ein helsta grundvallarstoð réttindabaráttu kvenna.

Á næsta ári fögnum við fimm ára afmæli Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna auk þess sem 25 ár verða síðan ályktun öryggisráðs SÞ 1325 hvað varða konur, frið og öryggi var samþykkt. Fyrst ber þó að fagna þýðingarmiklum sigrum í baráttu fyrir bættum hag kvenna á árinu 2019.

Nasa geimfararnir Jessica Meir og Christina Koch tóku þátt í fyrstu geimferð eingöngu mannaðri konum í október 2019. Ótrúlegt en satt, þá er þetta fyrsti kvennaleiðangurinn í geimnum. Þess ber að geta að fresta þurfti fyrirhugaðri geimferð í mars, þar sem ekki voru til nægilega mörg geimklæði í viðeigandi stærðum sem passaði geimkonunum.

Hvar værum við án Gretu Thunberg?

Hina 16 ára gömlu Gretu Thunberg þarf vart að kynna. Hennar barátta hófst með því að skrópa í skólann og mótmæla hamfarahlýnun og sigldi svo frá Svíþjóð á seglskútu til New York þar sem hún  lét þjóðarleiðtoga heimsins heyra það á Loftslagsráðsstefnu SÞ. „Þið hafið rænt mig draumum mínum og barnæsku með orðum ykkar tómum, samt er ég enn ein af þeim heppnu. Fólk er að þjást, fólk er að deyja. Vistkerfið er að hrynja.“ Takk Greta!

Blæðingatjákn í loftið

Við fögnum því að fá blæðingatjákn í safnið, virðist kannski ekki róttækt skref, en víða telst það til róttækra aðgerða að ræða opinskátt um tíðablæðingar kvenna.

Tímamótadómur féll á Spáni

Ung spænsk kona uppskar loks réttlæti eftir að hafa verið nauðgað af hópi karlmanna árið 2016. Eftir að undirréttur dæmdi svo að þolandi hafi gefið samþykki fyrir hópnauðguninni, þar sem tekið var mið af samfélagsmiðlum þolanda þar sem hún er talin hafa sýnt gleði mánuðum eftir árás, þá dæmdi hæstiréttur Spánar mennina seka. Dómurinn þykir bera vott af því að menning réttarkerfis Spánar sé að breytast og sé fyrsti vísir að hann hafni þolendaskömm.

Konur leggja undir sig íþróttaheiminn

Konur í íþróttum brutu blað í sögunni á árinu. Velgjörðarsendiherra UN Women, fótboltakonan Marta Vieira da Silva skoraði sautján mörk á heimsmeistaramóti í fótbolta sem er heimsmet, bæði á meðal kvenna og karla. „Ég er ekki næsti Usain Bolt eða Michael Phelps, ég er fyrsta Simone Biles,“ sagði fimleikastjarnan eftir að hafa unnið til tuttugustu og fimmtu heimsmeistaraverðlauna. Shelly Ann Fraser Pryce, geirnegldi sig í raðir fremstu spretthlaupara heims er hún vann fjórða heimsmeistaratitil sinn í 100 m spretthlaupi.

Súdanskar konur kröfðust breytinga

Þessi mynd birtist af Alaa Salah, leiðadi mótmælasöngva, fór eins og eldur um sinu í apríl. Myndin var tekin degi áður en Forseti Súdan var handtekinn. Konur og ungmenni leiddu mótmælin og voru 70% mótmælenda. Síðar á árinu, í október, ávarpaði Salah í kjölfarið Öryggisráð SÞ og biðlaði formlega til alþjóðasamfélagsins að tryggja konum fulla þátttöku við pólitískar ákvarðanatökur og mótun nýs samfélags í Súdan.

Þrjú ríki banna barnahjónabönd með lögum

Egyptaland, Tansanía og Indónesía bönnuðu með lögum þvinguð barnahjónabönd fyrir 18 ára aldur á árinu.

Afnám ofbeldis á vinnustöðum í brennidepli

Veigamikið skref var stigið  á vinnumarkaði í júní á árlegri ráðstefnu Alþjóða vinnumálastofnunarinnar þegar nýr alþjóðlegur sáttmáli í vinnulöggjöf um afnám ofbeldis og áreitni á vinnustöðum var samþykktur. Loksins!

Konur stýra Finnlandi

Sanna Marin var kosin næsti forsætisráðherra Finnlands í byrjun desember. Eru því nú fjórir af fimm forsætisráðherrum Norðurlandanna konur. Marin verður yngsti forsætisráðherra landsins og yngsti sitjandi forsætisráðherra heims. Hún leiðir ríkisstjórn landsins í fimm flokka ríkisstjórn en þess má geta að konur leiða einnig alla hina flokkana í ríkisstjórn.

Bætt lög í þágu allra

Ný lög sem ætlað er að varðveita mannréttindi LGBTQ+ fólks í Botswana, Brasilíu og Ekvador voru samþykkt í ár. Í Botsvana er samkynhneigð ekki lengur lögbrot, ótti við samkynhneigð og transfóbía er lögbrot í Brasilíu og í Ekvador er samkynhneigðum leyft með lögum að ganga í hjónaband. Við vonum að þessi breyttu lög og áfangasigrar hafi fiðrildaáhrif um heiminn.

Takk fyrir magnað jafnréttisár 2019 – við hlökkum til að halda baráttunni áfram með ykkur 2020

Related Posts