fbpx

Sima Bahous: Fortíðin full af dæmum um vanræktar konur

Heim / Fréttir / Sima Bahous: Fortíðin full af dæmum um vanræktar konur

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women. UN Women/Ryan Brown.

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, flutti erindi á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðuna í Afganistan sem haldinn var þann 26. september sl.

Í erindinu talar Sima um stöðu kvenna í landinu og leggur áherslu á það að afganskar konur vilji það sem allar aðrar konur vilja – jafnrétti og virðingu, og réttinn til að lifa lífi sínu með reisn.

UN Women, í samstarfi við UNAMA og IOM, hefur frá valdatöku talíbana ráðfært sig reglulega við afganskar konur og stúlkur til að meta þarfir þeirra. Út frá þessum samtölum kom í ljós að afganskar konur telja að aðgengi að menntun sé það allra mikilvægasta en fjórar af hverjum fimm konum og stúlkum á skólaaldri fá ekki að ganga í skóla. Þetta hefur mikil og slæm áhrif til lífstíðar, ekki bara fyrir þessar konur og stúlkur heldur einnig fyrir fjölskyldur þeirra og afganskt samfélag í heild sinni.

90% kvenna búa við slæma geðheilsu

Sima segir að mikilvægt sé að koma á alþjóðlegum lögum sem  banna kynjaaðskilnaðarstefnu, líkt og þá sem talíbanar viðhafa. En grafið er undan kvenréttindum með markvissum hætti í landinu.

Sima nefnir þrjú atriði sem þarfnast sérstakrar athygli vegna stöðunnar í Afganistan:

  1. Völd kvenna til ákvarðanatöku, ekki aðeins á opinberum sviðum heldur einnig innan heimila og fjölskyldna sinna, hafa minnkað gífurlega. Afganskar konur eru sviptar fleiri og fleiri réttindum og eru mjög einangraðar vegna ógnarstjórnar og feðraveldis talíbana. Samkvæmt gögnum UN Women hitta aðeins 22% afganskra kvenna aðrar konur minnst einu sinni í viku, utan kvenna í þeirrar nánustu fjölskyldu. Einangrunin sem konurnar búa við hefur mjög slæm áhrif á andlega heilsu þeirra og hætta á kynbundu ofbeldi eykst.
  2. Eins og stendur hafa fleiri en fimmtíu takmarkandi reglur og lög verið sett gegn konum í Afganistan. Afganskar konur tala um að refsingar fyrir brot á reglum talíbana verði sífellt harkalegri og tíðari, en afganskir karlmenn bera ábyrgð á að refsa konum sínum og sjá til þess að þær hlýði þeim reglum sem þeim eru settar.
  3. 90% þeirra kvenna í Afganistan sem UN Women ræddi við lýsa slæmri geðheilsu og mikilli vanlíðan, en sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir kvenna eru algeng. Konurnar lýsa sjálfum sér sem föngum. Þær eru fastar inni á heimilum sínum og sjá ekki fyrir sér neina von eða framtíð.

20 milljónir þurfa lífsbjargandi aðstoð

Konur í Afganistan lýsa sér sem föngum á heimilum sínum. Mynd: UN Women. Mynd: UN Women

Í erindi sínu nefnir Sima að tala fjölskyldna sem búi við sárafátækt hafi næstum tvöfaldast á tveimur árum. 20 milljónir manns búa við mikinn matarskort, meirihluti þeirra eru konur og stúlkur. Tveir þriðju hlutar íbúa þarfnast mannúðaraðstoðar til að lifa af.

Árásir talíbana á réttindi kvenna gera það að verkum að þessi vandi eykst enn fremur – en af því að konum er ýtt út af vinnumarkaði geta þær ekki séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Sima endar ræðu sína með þeim orðum að fortíðin sé full af dæmum þar sem „konur voru vanræktar og ekki hlustað á þær; nútíðin er full af afleiðingum þess“. Því sé nauðsynlegt að hlustað verði á konur í framtíðinni, fjárfest í þeim og þær studdar og valdefldar.

Related Posts
FO vetlingar