fbpx

Aukning á sjálfsvígum kvenna í Afganistan eftir yfirtöku talíbana.

Heim / Fréttir / Aukning á sjálfsvígum kvenna í Afganistan eftir yfirtöku talíbana.

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir.

Þau sem glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á; Upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218.

Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.

 

Afgönsk kona í Kabúl. Mynd: UN Women

Allt frá því að talíbanar tóku völdin í Afganistan sumarið 2021, hefur ógnvekjandi aukning orðið í fjölda kvenna sem taka eigið líf eða gera tilraun til þess. Þetta sýna gögn frá opinberum sjúkrahúsum og geðheilbrigðisstofnunum í þriðjungi héraða í Afganistan. Samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), deyja meira en tvöfalt fleiri karlar í sjálfsvígi en konur, á heimsvísu. Það átti einnig við um Afganistan allt til ársins 2019, en opinber gögn hafa ekki verið aðgengileg síðan þá. Óopinberar tölur frá heilbrigðisstarfsfólki í ríkinu benda hins vegar til geðheilbrigðiskreppu í kjölfar alvarlegra takmarkana á lífi afganskra kvenna. Þetta kemur fram í grein The Guardian um málið.

Þrátt fyrir að talíbanar hafi meinað heilbrigðisstarfsfólki að birta gögn um sjálfsvíg, samþykkti það að deila tölum fyrir heilt ár, frá ágúst 2021 til ágúst 2022, til rannsóknar og til að varpa ljósi á hve mikil neyðin er. Þrátt fyrir að tölurnar nái einungis yfir þriðjung héraða í Afganistan, endurspegla þær þó ríkið að miklu leyti, ef tekið er tillit til lýðfræði og landafræði þess, og gefa vissa heildarmynd af ástandinu þar. Gögnin benda til þess að Afganistan sé orðið eitt af mjög fáum ríkjum í heiminum þar sem fleiri konur en karlar deyja í sjálfsvígum. Aðeins í Nimruz héraði voru karlar í meirihluta þeirra sem hafa látist í sjálfsvígi eða reynt að taka eigið líf. Á öðrum stöðum voru konur og stúlkur í meirihluta þeirra sem létust í sjálfsvígi eða fengu aðstoð eftir sjálfsvígstilraun. Yngstu fórnarlömbin, sem vitað er um, voru rétt komin á unglingsárin.

Á heildina litið áttu konur í hlut í fleiri en þremur af fjórum skráðum tilfellum. Tölurnar gefa þó líklega ekki rétta mynd af því hve raunverulega mikil örvænting kvenna í Afganistan er. Talíbanar hafa hafnað ítrekuðum beiðnum um viðbrögð við tíðni sjálfsvíga, en þau ganga gegn íslamskri trú og er mikil leyndarhyggja og skömm í kringum sjálfsvíg í Afganistan.

 

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna áhyggjufullir yfir stöðunni

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og aðgerðasinnar hafa vakið athygli á mikilli aukningu í fjölda kvenna í Afganistan sem reyna að taka eigið líf. Þau hafa tengt það beint við takmarkanir talíbana á öllum sviðum í tilveru kvenna, allt frá banni við menntun umfram grunnskóla og bann við flestum störfum, til aðgöngubanns í almenningsgarða, baðhús og önnur almenningsrými. Saga átaka og fátæktar í Afganistan hafði kynt undir geðheilbrigðiskreppu löngu fyrir ágúst 2021. Könnun sem birt var í tímaritinu BMC Psychiatry tveimur mánuðum fyrir valdatöku talíbana, sýndi að nærri helmingur íbúa í Afganistan þjáðist af andlegri vanlíðan. En frelsissvipting og vonarmissir, sem og aukning í nauðungar- og barnahjónaböndum og heimilisofbeldi, hefur gert það að verkum að konur hafa orðið enn berskjaldaðri fyrir andlegum veikindum síðustu tvö árin.

Konur í Afganistan. Mynd: UN Women / Sayed Habib Bidel

Níu af hverjum tíu í Afganistan verða fyrir einhvers konar heimilisofbeldi, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Tilraunir til að takast á við vandann í tíð síðustu ríkisstjórnar, með allt frá lagasetningu til uppbyggingar á neyðarskýlum, voru ófullkomnar en veittu konum þó einhverja von. Þessar tilraunir hafa nú orðið að engu vegna talíbana og búið er að uppræta algjörlega það kerfi sem á að bregðast við heimilisofbeldi.

,,Afganistan er í miðri geðheilbrigðiskreppu af völdum kvenréttindakreppu,“ sagði Alison Davidian, fulltrúi UN Women í Afganistan. „Við erum að verða vitni að augnabliki þar sem vaxandi fjöldi kvenna og stúlkna telur það skárri kost að deyja en að lifa við núverandi aðstæður.“ Hún vísar þar í þá miklu afturför sem hefur orðið réttindum kvenna í ríkinu, þar sem nær öll ákvarðanataka um eigið líf hefur verið tekið úr höndum konunnar og sett í hendur fjölskyldu hennar eða eiginmanns.

Sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála í Afganistan, Richard Bennett, og formaður vinnuhóps Sameinuðu þjóðanna um mismunun gegn konum og stúlkum, Dorothy Estrada-Tanck, sögðu í maí sl. að þau væru „mjög áhyggjufull yfir stöðu geðheilbrigðismála og stigvaxandi sjálfsvígum meðal kvenna og stúlkna“.

 

Eina leiðin þegar öll von er úti og neyðin er slík

Læknar í Herat-héraði, þar sem flest tilfelli sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna kvenna voru skráð, lýstu kerfi sem er sprungið, þar sem aðeins er að finna 25 geðheilbrigðisrúm fyrir milljónir íbúa. Mikið hefur verið um kynbundið ofbeldi og sjálfsvíg kvenna í héraðinu í mörg ár. Þörf á læknisþjónstu hefur þó aukist mikið síðan talíbanar tóku við völdum. „Sjúklingar fá ekki þann innlagnartíma og ráðgjöf sem þeir þurfa,“ sagði einn heilbrigðisstarfsmaður. „Við setjum oft tvo sjúklinga í eitt rúm.“

Sum líta á sjálfsvíg sem einu mögulegu leiðina til að sýna mótþróa í landi þar sem yfirvöld reyna að fjarlægja konur alfarið úr opinberu lífi. „Þær hafa ekki mikið rými til að mótmæla og tjá óánægju sína,“ sagði Julie Billaud, mannfræðiprófessor við Genf Graduate Institute og höfundur Kabul Carnival, bók um kynjapólitík í Afganistan eftir stríð. „Örvæntingin er komin til að vera. Kannski er sjálfsvíg síðasta tilraun þeirra sem hafa ekkert vald til að segja neitt lengur, að láta í sér heyra.“

 

Þú getur stutt við konur í Afganistan með kaupum á neyðarpakka eða með því að gerast Ljósberi.

Mynd: UN Women í Afganistan

Related Posts
Anna SteinsenFO vetlingar