fbpx

Yfirlýsing frá UN Women á Íslandi vegna ólögmætrar notkunar á FO-myndefni

Heim / Fréttir / Yfirlýsing frá UN Women á Íslandi vegna ólögmætrar notkunar á FO-myndefni
Álfgrímur FO 2022

Fo herferðin 2022 var til styrktar hinsegin sjóði UN Women.

UN Women á Íslandi hefur orðið vart við að ljósmyndum sem teknar voru fyrir FO herferð samtakanna árið 2022 hefur verið breytt og þeim dreift á samfélagsmiðlum í annarlegum tilgangi.

FO herferð UN Women á Íslandi 2022 var til stuðnings hinsegin verkefnum UN Women á heimsvísu. Þetta var í fyrsta sinn sem nokkur landsnefnd UN Women safnaði í hinseginsjóð UN Women, sem hafði þá staðið tómur um hríð. UN Women á Íslandi fékk 40 hinsegin einstaklinga til að sitja fyrir í herferðinni. Þátttaka þeirra var UN Women á Íslandi afar mikilvæg enda lögðu þau herferðinni lið með því að vera andlit hennar og vekja athygli á því bakslagi sem orðið hefur á réttindum hinsegin fólks á heimsvísu og á Íslandi. UN Women á Íslandi harmar því að myndefni herferðarinnar sé nú notað gegn þessum einstaklingum og málstað þeirra.

Birting myndefnisins er bæði brot á höfundarrétti og brot á friðhelgi einkalífs viðkomandi einstaklinga. Brotin eru alveg skýr: Ljósmyndirnar njóta höfundaverndar og einstaklingarnir friðhelgi einkalífs.

UN Women berst fyrir réttindum hinsegin fólks

UN Women er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir réttindum og málefnum hinsegin fólks um allan heim, enda verður jafnrétti ekki náð nema með jöfnum réttindum allra hópa. Það er sorglegt að verða vitni að því gríðarlega bakslagi sem orðið hefur í réttindabaráttu hinsegin fólks, á Íslandi og innan Sameinuðu þjóðanna, þar sem aðildarríki takast á um þessi málefni. Staðreyndin er þó sú að hinsegin fólk býr við gríðarlega mismunun, skert réttindi og ofbeldi sökum kyns og kynhneigðar. Það er því gríðarlega mikilvægt að UN Women standi áfram vörð um velferð og réttindi hinsegin fólks á tímum sem þessum.

  • 2 milljarðar fólks búa í ríkjum þar sem hinseginleiki er álitinn glæpur.
  • 84% ríkja heims banna samkynja hjónabönd og viðurkenna ekki tilvist þeirra. Það er því yfirgnæfandi meirihluti landa í heiminum sem banna þau. Mikið bakslag hefur átt sér stað til dæmis í Bandaríkjunum og víða í Evrópu þar sem árangur hafði áður náðst og því standa þessi réttindi víða höllum fæti.
  • Hinsegin fólk er 97% líklegra til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en þau sem ekki skilgreina sig sem hinsegin.
  • Hinsegin fólk er handtekið og sett í fangelsi fyrir að vera það sjálft í 35% ríkja heims. Í sumum löndum varðar það dauðarefsingu, í öðrum er grófum pyntingum og ómannúðlegri meðferð beitt. Refsingin er mismikil. Í Úganda, Súdan, Zambíu og Gambíu svo dæmi séu tekin, varðar það lífstíðarfangelsi, í Afganistan er hægt að dæma fólk til dauða, í Pakistan og Brunei er fólk steinað til dauða fyrir að vera hinsegin, í öðrum löndum tíðkast refsingar á borð við hýðingar, sektir eða opinber smánun.
  • Í 6 löndum ríkir dauðarefsing við samkynhneigð og samböndum fólks af sama kyni.
  • Þeir hópar sem búa við hvað mesta mismunun og fordóma í heiminum í dag eru trans konur og intersex konur.
  • Aðeins 37 ríki heims veita hinsegin fólki alþjóðlega vernd/hæli á grundvelli ofsókna vegna kynvitundar/kynhneigðar. Að minnsta kosti 5% þeirra sem eru á flótta í heiminum í dag eru hinsegin fólk. Mörg þeirra eru á flótta sökum kynhneigðar og/eða kynvitundar og/eða aktívisma í þágu hinsegin fólks. Árið 2018 fjölgaði umsóknum um alþjóðlega vernd á grundvelli ofsókna vegna kynvitundar/kynhneigðar umtalsvert.

 

UN Women á Íslandi stendur með réttindum hinsegin fólks og ítrekar þá staðreynd að jafnrétti verður ekki náð nema með jöfnum réttindum allra.

 

Fyrir hönd UN Women á Íslandi,

Stella Samúelsdóttir

Framkvæmdastýra

Related Posts