fbpx

Afganistan: Stuðningsyfirlýsing vegna jarðskjálftans síðastliðinn föstudag

Heim / Fréttir / Afganistan: Stuðningsyfirlýsing vegna jarðskjálftans síðastliðinn föstudag

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst yfir stuðningi við afgönsku þjóðina vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið síðastliðinn föstudag. Jarðskjálftinn, sem átti sér stað um klukkan 11 fyrir hádegi að staðartíma, var 6,3 að stærð og voru upptök hans um 40 kílómetra norðvestur af borginni Herat í vesturhluta landsins.

Afganskar konur og börn. Mynd: UN Women

Skjálftinn olli dauðsföllum í átta þorpum og í gærkvöldi var fjöldi látinna kominn yfir þúsund og fjöldi særðra yfir 1600 í 11 héruðum. Talið er að öll heimili hafi gjöreyðilagst á Zindajan svæðinu. Fjölda er enn saknað, þar af eru konur í meirihluta. Þetta kemur fram á fréttasíðu Sameinuðu þjóðanna.

Stofnanir SÞ eru á jarðskjálftasvæðinu ásamt samstarfsaðilum og vinna þar með starfandi yfirvöldum að því að meta neyðina og veita neyðaraðstoð. Fleiri viðbragðsteymi eru væntanleg á svæðið.

Samhæfingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) hefur samþykkt neyðarúthlutun úr mannúðarsjóði Afganistan upp á fimm milljónir Bandaríkjadala, til að styðja við áframhaldandi neyðaraðstoð. Stofnanir SÞ munu jafnframt móta aðgerðaráætlun og neyðarsöfnun til að bregðast við hamförunum.

„Nú þegar veturinn nálgast, kallar aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna eftir því að  alþjóðasamfélagið komi saman og styðji við fólkið sem varð fyrir áhrifum jarðskjálftans, sem mörg hver voru þegar í neyð áður en skjálftinn reið yfir,“ er haft eftir talsmanni SÞ.

Framkvæmdastýra UN Women vottar aðstandendum samúð sína

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, vottaði þeim sem misstu ástvini sína í jarðskjálftanum samúð sína á samfélagsmiðlinum X (áður þekkt sem Twitter) í gær. Hún sagði jafnframt að UN Women væru á vettvangi og að stuðningur okkar og skuldbinding við afganskar konur og stúlkur væri óumdeilanlegur.

 

Þú getur stutt við konur í Afganistan með kaupum á neyðarpakka eða með því að gerast Ljósberi.

Related Posts