fbpx

Mið-Austurlönd: Mörg hundruð látin og átökin breiðast út

Heim / Fréttir / Mið-Austurlönd: Mörg hundruð látin og átökin breiðast út

Fólk gengur um rústir húsa í Gaza. UN News/Ziad Taleb

Hörð átök hafa geisað á milli í ísraelskra hersveita og palestínsku Hamas-samtakanna frá því á laugardag. Mörg hundruð hafa farist í átökunum og þúsundir særst beggja vegna landamæranna. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna kalla eftir tafarlausu vopnahléi.

Átökin hófust á laugardag með skyndilegri árás Hamas samtakanna á Ísrael. Ísraelsher hóf í kjölfarið  gagnsókn á Gaza. Talið er að um 700 hafi farist í Ísrael frá því að átökin hófust og um 400 í Gaza. Þá hefur Hamas tekið óbreytta borgara sem gísla, þar með talið börn, konur og fólk með fatlanir.

Átökin einnig við landamæri Líbanon

Á Gaza hefur fjöldi óbreyttra borgara leitað skjóls hjá UNRWA, Palestínuflóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem stofnuð var árið 1949 og rekur flóttamannabúðir fyrir palestínska flóttamenn í Jórdaníu, Sýrlandi, Líbanon, Vesturbakkanum og Gaza. Um 74 þúsund einstaklingar hafa leitað skjóls í alls 64 skólum sem reknir eru af UNRWA á Gaza. Samkvæmt stofnuninni varð ein skólabygging fyrir beinni árás á sunnudag, en ekkert mannfall varð.

Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar tilkynnt um átök við landamæri Ísraels og Líbanon, nærri Kafr Chouba, en talið er að Hezbolla hafi skotið loftskeytum yfir landamærin til Ísrael og var þeim svarað í sömu mynt.

Hálf milljón án matar á Gaza

Ísrael hefur lokað fyrir alla aðstoð inn á Gaza svæðið sem hefur hamlað mjög starf Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme).

„Við hvetjum alla hlutaðeigandi til að tryggja neyðaraðstoð inn á átakasvæðin og að mannréttindi séu virt í hvívetna,“ sagði í tilkynningu frá stofnuninni.  Talið er að um hálf milljón einstaklinga á Gaza séu án matvæla að svo stöddu.

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, sem sjálf er frá Jórdaníu, kveðst hafa miklar áhyggjur af ástandinu.

„Það er fyrir öllu að almennir borgarar, þar með talið konur og börn, séu óhult. Við köllum eftir tafarlausu vopnahléi og að alþjóðalög og mannréttindi séu virt,“ sagði í tilkynningu sem Bahous birti á samfélagsmiðlum í gær, sunnudag.

Related Posts
Gaza, stúlka, rústir