Sérhæfir sig í barnaljósmyndun í Palestínu

Home / Fréttir / Sérhæfir sig í barnaljósmyndun í Palestínu

Doaa Eshtayeh er búsett í borginni Nablus í Palestínu og starfar þar sem ljósmyndari. Hún naut fjárstuðnings UN Women til að koma fyrirtæki sínu á laggirnar og kaupa þann búnað sem vantaði.

Lagði fyrir sig ljósmyndun til að geta séð fyrir fjölskyldunni

„Ég hef verið fyrirvinna fjölskyldunnar undanfarin þrjú ár, ásamt því að ala upp tvö börn. Sonur minn, Islam, er með einhverfu. Eiginmaður minn er óvinnufær og því ákvað ég að leggja fyrir mig ljósmyndun til að geta séð fyrir fjölskyldunni,“ útskýrir Doaa sem sérhæfir sig í mynda ungbörn og krakka.

„Í fyrstu vissi ég ekki hvernig ég ætti að bera mig að, því myndavél og búnaður kostar mikinn pening. Ég frétti af Business Women Forum vettvangnum sem styður við palestínskar konur sem vilja efla fyrirtæki sín. Ég komst að á námskeiði hjá þeim og fékk aðstoð við að bæta ljósmyndakunnáttu mína og kennslu í rekstri. Þar fékk ég jafnframt lán til að festa kaup á nýjum prentara sem gerir mér kleift að prenta út hágæða myndir heima hjá mér.“

Liður í að efla fjárhagslegt sjálfstæði kvenna

Business Women Forum vettvangnum í Palestínu er ætlað að efla konur í rekstri. Þar taka þær þátt í sex mánaða löngu námskeiði í rekstri og hljóta lán til þess að hefja eigin starfsemi. Verkefnið er styrkt af UN Women og er liður í að efla fjárhagslegt sjálfstæði kvenna um heim allan. Með því að efla fjárhagslegt sjálfstæði kvenna leggjum við drög að jafnrétti, upprætingu fátæktar og eflum hagkerfi ríkja – en með því hlýst einnig aukin þátttaka kvenna í stjórnmálum, menntun og líkur á heimilisofbeldi og þvinguðum barnahjónaböndum minnka.

„Börnin mín eru minn helsti hvati til þess að standa mig og halda áfram að efla mig. En það getur verið erfitt að samræma vinnuna og þarfir sonar míns. Ég mæli sterklega með því að konur hefji sinn eigin rekstur og verði þannig fjárhagslega sjálfstæðar og geti orðið leiðandi í samfélaginu. Draumur minn er að opna fyrsta ljósmyndastúdíóið í Palestínu sem sérhæfir sig í barnaljósmyndun. Margar mæður í Palestínu dreymir um að eignast faglegar myndir af börnum sínum – stúdíóið mitt mun verða staðurinn sem þær leita til.“[/vc_column_text][/vc_column][/vc_row]

TAKTU ÞÁTT

Þú getur hjálpað konum eins og Doaa að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði með því að gerast ljósberi UN Women
Related Posts