fbpx

Ný stjórn kjörin á aðalfundi UN Women 2020

Heim / Fréttir / Ný stjórn kjörin á aðalfundi UN Women 2020

Aðalfundur UN Women á Íslandi fór fram í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í dag 29. apríl en í ljósi aðstæðna var aðalfundur samtakanna í formi fjarfundar.

Breytingar urðu á stjórn samtakanna og voru þeir Kristján Hjálmarsson, Ólafur Elínarson og Ólafur Þ. Stephensen kosnir í stjórn til næstu tveggja ára. Þess ber að geta að sá síðastnefndi snýr aftur í stjórn UN Women Íslandi eftir þriggja ára hlé. „Ég sat í stjórn landsnefndarinnar í sex ár, frá 2011 til 2017, þar af tvö ár sem varaformaður. Ég var farinn að sakna þessa góða starfs og að geta látið gott af mér leiða í þágu jafnréttis kynjanna, þannig að mér fannst rétt að bjóða aftur fram krafta mína,“ segir Ólafur að aðalfundi UN Women loknum.  Eftirfarandi meðlimir sitja áfram í stjórn UN Women á Íslandi: Arna Grímsdóttir, formaður, Fanney Karlsdóttir, varaformaður, Kristín Ögmundsdóttir, gjaldkeri auk þeirra sitja í stjórn Bergur Ebbi Benediktsson, Soffía Sigurgeirsdóttir, og Þórey Vilhjálmsdóttir.

Á fundinum kom fram að söfnunartekjur UN Women á Íslandi sem sendar voru til stuðnings verkefna UN Women á heimsvísu voru rúmar 127 milljónir króna og hækkuðu um 19% milli ára.

Aldrei hafa jafn margir ljósberar UN Women á Íslandi bæst í hóp samtakanna, eða um 3.000 nýir á árinu 2019, sem hækkaði tekjur frá þeim hópi um 30% á milli ára. Í lok árs 2019 voru ljósberar samtakanna orðnir 9.200 talsins og má með sanni segja að þeir séu hjartað í starfsemi UN Women á Íslandi.  Þess ber einnig að geta að þetta er fjórða árið í röð sem UN Women á Íslandi sendir hæsta fjárframlag allra tólf landsnefndanna á heimsvísu, óháð höfðatölu, sem ber vitni um meðvitund og velvilja landsmanna og vilja til að bæta stöðu kvenna og auka jafnrétti.

Á fundinum var jafnframt samþykkt að festa í lög félagsins að við stjórnarkjör skuli tryggja að kynjahlutföll innan stjórnar séu sem jöfnust og að hlutfall hvers kyns sé ekki hærra en 60%. Að sama skapi var lögum félagsins breytt og hefur nú einnig formaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi atkvæðarétt og því hluti af stjórn samtakanna.

UN Women á Íslandi þakkar Magnúsi Orra Schram, Ólafi Stefánssyni og Erni Úlfari Sævarssyni fyrir vel unnin störf er þeir láta af sæti stjórnar.

Jafnframt vill stjórn og starfsfólk þakka þeim rúmlega 9.200 ljósberum sem styðja við starf UN Women með mánaðarlegu framlagi sem og öðrum styrktaraðilum og velunnurum.

Related Posts