Loftslagsbreytingar ógna friði og öryggi

Home / Fréttir / Loftslagsbreytingar ógna friði og öryggi

Áhrif loftslagsbreytinga eru margvísleg og margslungin og eru enn að verða okkur ljós. Þær hafa áhrif á veðurfar, dýralíf og síðast en ekki síst, samfélög. Nýleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna, unnin m.a. annars af UN Women sem nefnist Gender, climate & security, fjallar um áhrif loftslagsbreytinga á kynjahlutverk og frið. Árið 2018 höfðu 28 milljónir jarðarbúa flúið heimili sín sökum átaka eða náttúruhamfara. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er því gífurlegur, hann snertir okkur öll og því þarf samheldið átak allra þjóða til að sporna við afleiðingum þeirra.

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á öll svæði heimsins, en með misjöfnun hætti. Víða hafa stöðugir þurrkar og hækkandi hiti haft gríðarleg áhrif á lífsviðurværi og afkomu fólks og ógna þeim framförum sem átt hafa sér stað í fátækari ríkjum heims. Í Tsjad hafa tíðir þurrkar leitt til fæðuskorts, búflutninga, hærra matarverðs, sárafátæktar og stjórnarfarslegs óróleika. Átökum hefur fjölgað í takt við aukinn skort á fæðu og ræktarlandi. Þriðjungur kvenna og stúlkna í Tsjad búa við ofbeldi og skert mannréttindi, bæði innan og utan heimilisins.

Í Papúa Nýju-Gíneu hefur gríðarleg landeyðing, landtaka sem og tíð flóð og skriður haft hræðileg áhrif á daglegt líf frumbyggja landsins sem þurfa nú í fyrsta sinn að reiða sig á innflutt matvæli í stað eigin ræktunar. Konur sáu að megninu til um landrækt og umhirðu nytjaskóga en með aukinni landeyðingu horfa þær fram á að missa heimili sín, tekjuleysi og verða fyrir vikið útsettari fyrir hverskyns ofbeldi.

Tíðir þurrkar á dreifbýlum svæðum í Pakistan hafa komið illa niður á konum. Þær eiga erfitt með að hugsa um veik börn og fjölskyldumeðlimi þegar ekkert hreint vatn er til staðar. Þær eru beittar ofbeldi fyrir að „misnota“ vatnsbirgðir heimilisins til að sinna börnum sínum en líka þegar þær yfirgefa heimili sín án fylgdar karlmanns í leit að neysluvatni. Samkvæmt skýrslu UN Women hefur borið á því að glæpamenn þurrki upp vatnsból og selji vatnið svo á okurverði.

Víða í Mið-Ameríku neyðast konur og karlar nú til að dvelja hluta árs fjarri fjölskyldum sínum til að afla tekna þar sem ekki er hægt að treysta á landbúnað lengur. Þegar karlmaður yfirgefur fjölskyldu sína vegna farandvinnu, tekur konan við öllum hans verkefnum samhliða sínum. Þegar kona yfirgefur heimilið sökum farandvinnu, falla verkefni hennar ekki á eiginmanninn, heldur á herðar annarra kvenna innan fjölskyldunnar. Vinnuálag kvenna verður því meira eftir því sem áhrif loftslagsbreytinga gætir frekar. Þær þurfa einnig að ganga lengri vegalengdir eftir vatni og eyða meiri tíma í umönnun fjölskyldumeðlima. Með breyttu veðurfari og hækkandi hitastigi hefur moskítóflugum fjölgað í Mið-Ameríku og með þeim tíðni veirusýkinga á borð við zika, dengue og chikungunya sóttar.

Áskorarnirnar eru margar þegar kemur að baráttunni við loftslagsbreytingar. Í mörgum tilfellum rýrnar hagur kvenna þegar áhrifa þeirra fer að gæta í fátækum samfélögum. Þessar samfélagslegu breytingar eru þó einnig tækifæri til að efla konur, styrkja rödd þeirra og ákvörðunarvald, bæði heima fyrir og í samfélaginu. Það er í verkahring okkar allra að tryggja að svo verði.

[/vc_column_text][/vc_column][/vc_row]

TAKTU ÞÁTT

Þú getur stutt við bakið á konum sem glíma við afleiðingar loftslagsvandans víða um heim með því að gerast ljósberi UN Women.

Related Posts