Hildi Yeoman þarf vart að kynna en hún hefur verið meðal fremstu fatahönnuða landsins um árabil. Í tilefni af Hönnunarmars bjó Hildur til svokallaða djammtoppa úr afgangsefni sem féll til við framleiðslu og seldi til styrktar UN Women í verslun sinni Yeoman á Skólavörðustíg.


Með þessu framtaki vildi Hildur bæði styrkja gott málefni og stuðla að sjálfbærri framleiðslu með því að nýta afgangana sem best. Á Instagramsíðu verslunar sinnar óskaði Hildur eftir tillögum að málstað til að styrkja í tilefni af Hönnunarmars og fékk ýmsar uppástungur. „Við ákváðum að styðja við UN Women og konur á flótta að þessu sinni. En við munum pottþétt vinna fleiri svipuð verkefni í framtíðinni.“
Óhætt er að segja að topparnir hafi slegið í gegn en þeir seldust upp og heilar 400.000 krónur söfnuðust í átakinu. Við þökkum Hildi hjartanlega fyrir dýrmætan styrk sem nýtist UN Women í baráttunni gegn Covid-19 veirunni í flóttamannabúðum víða um heim.