Í faraldri skerðist aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu

Home / Fréttir / Í faraldri skerðist aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu

Skæðir veirufaraldrar á borð við Covid-19, Zika og Ebólu ógna ekki aðeins heilsu fólks, heldur hafa þeir neikvæð áhrif á stöðu og réttindi kvenna og jaðarsettra hópa. Strax í vor vöktu ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna athygli á skuggafaraldri sem geisaði samhliða Covid-19. Umræddur skuggafaraldur var heimilisofbeldi sem jókst til muna meðan á samkomutakmörkunum stóð en hafði þá lítið verið rætt um.

Reynslan hefur sýnt að áhrif faraldra leggjast af meiri þunga á konur og jaðarsetta hópa en karla. Nýlegar úttektir og rannsóknir sýna að á meðan útgöngubönnum hefur staðið vegna Covid-19 faraldursins hefur heimilisofbeldi aukist gríðarlega. Barnshafandi konum hefur verið vísað frá fæðingardeildum sjúkrahúsa því ekki er rými eða starfsfólk til að sinna þeim. Konur sem starfa sem heimahjálpir verða útundan í efnahagslegum aðgerðaráætlunum ríkisstjórna og með langvarandi skólalokunum hefur vinnuframlag kvenna tvöfaldast í faraldrinum. Þá eru konur líklegri til að missa vinnuna en karlmenn.

Tilfellum mæðradauða fjölgar í heimsfaraldri

Þegar Ebólufaraldur geisaði í Sierra Leone árið 2014 mátti strax greina neikvæð áhrif faraldursins á líf kvenna. Eftir því sem smitum fjölgaði í landinu, varð tíðni mæðra- og ungbarnadauða hærri. Sjúkrahús lokuðu fæðingardeildum sínum í þeim tilgangi að sinna smituðum og því neyddust margar konur til þess að fæða án aðstoðar fagfólks. Í lok faraldursinshöfðu 3.589 látist af Ebólu, en um 3.500-4.900 fleiri konur og börn létust við barnsburð en á árunum fyrir 2014.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að sparnaðaraðgerðir í mæðravernd sem fátækari ríki hafa sett á til að stemma stigu við kostnaði vegna Covid-19, muni kosta allt að 113.000 konur lífið.

Það er gríðarlega mikilvægt að raddir allra fái að heyrast þegar tekist er á við veirufaraldur. Viðbragðsáætlanir sem taka einungis mið af þörfum afmarkaðra hópa auka aðeins á mismunun og ójöfnuð í samfélögum.

Á tímum Covid-19 hefur UN Women

  • Veitt konum sem beittar eru heimilisofbeldi aðgang að viðeigandi þjónustu, lögregluaðstoð, neyðarmóttöku og athvarf.
  • Þrýst á aukin réttindi kvenna á vinnumarkaði sem og ríkisstjórnir heims að taka mið af þörfum og réttindum kvenna í efnahagslegum aðgerðum í kjölfar Covid 19
  • Unnið að takmarkaðri tekjuskerðingu vegna t.d. lokana og útgöngubanns og beitt sér fyrir sveigjanlegum vinnutíma vegna veikinda í fjölskyldu.
  • Tryggt jaðarsettum hópum kvenna aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um faraldurinn, líkt og konum sem búa við fötlun, í dreifbýli og við fátækt.

TAKTU ÞÁTT

Þú getur stutt við bakið á konum sem glíma við afleiðingar Covid-19 faraldursins víða um heim með því að gerast ljósberi UN Women.

Related Posts