Neyð kvenna vegna COVID-19 fer vaxandi

Home / Fréttir / Neyð kvenna vegna COVID-19 fer vaxandi

Reykjavíkurmaraþonið hefur verið dýrmæt innspýting í fjáröflun UN Women á Íslandi undanfarin ár, en fjöldi fólks hefur veitt ómetanlegan styrk til verkefna UN Women með því að safna áheitum og hlaupa í nafni kvenna og stúlkna um allan heim.

Því miður fellur maraþonið niður í ár. Neyð kvenna vegna COVID-19 er hins vegar enn til staðar og fer vaxandi með hverjum deginum. Um leið og ríki heimsins glíma við alvarlegar efnahagslegar afleiðingar Covid-19 faraldursins eru fjármunir til kvennasamtaka skornir niður sem og aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu. Í kreppu eru stúlkur líklegri til að hætta í skóla og verða þvingaðar ungar í hjónaband, auk þess sem staða kvenna og stúlkna í neyð og í flóttamannabúðum versnar til muna.

UN Women er til staðar fyrir konur um allan heim og mætir þörfum þeirra með ólíkum hætti, til dæmis með því að:

  • dreifa sóttvarnarpökkum til kvenna í flóttamannabúðum, svo sem í Jórdaníu og Bangladess, og fræða þær um smitvarnir
  • opna sérstakt kvennaathvarf í Addis Ababa, Eþíópíu, fyrir þolendur heimilisofbeldis meðan á sóttkví stendur
  • móta verkferla í Indónesíu sem tryggja öryggi kvenna og barna sem þurfa að dvelja í sóttvarnahúsum
  • koma á fót fjarnámskeiðum í Suður-Afríku sem veita konum leiðsögn í því hvernig megi nálgast brúarlán fyrir fyrirtæki sín.
  • veita konum í Líbanon neyðarlán, tryggja þeim mat og sæmdarsett með helstu nauðsynjum í kjölfar sprengingarinnar á hafnarsvæði Beirút
  • leiða samstarf kvennasamtaka um viðbragðsáætlanir í tengslum við COVID-19 og undirbúning á Gaza-svæðinu og í Palestínu
  • dreifa hrísgrjónum, ræktuðum af kvenbændum í Senegal, til fjölskyldna í neyð og styðja í senn starfsemi kvenna á svæðinu

TAKTU ÞÁTT

Þú getur hjálpað UN Women að mæta þörfum kvenna sem búa við neyð á tímum Covid-19.

Related Posts