Kynbundið ofbeldi eykst í Líbanon

Home / Fréttir / Kynbundið ofbeldi eykst í Líbanon

Konur og stúlkur í Líbanon eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynbundnu ofbeldi. Sprengingarnar 4. ágúst síðastliðinn, Covid 19 faraldurinn og djúpstæð efnahagskreppa veikja stöðu kvenna og stúlkna. UN Women er til staðar í Líbanon og veitir konum í neyð vernd, öryggi, sálræna aðstoð og atvinnutækifæri.

Sprengingarnar í Beirút lögðu borgina í rúst og kölluðu hörmungar yfir landið. Yfir 200 hafa látist, rúmlega 5000 eru særðir og yfir 300.000 hafa misst heimili sín. Covid-19 smitum fjölgar ört en fimm dögum eftir sprengingarnar mældist hæsta hlutfall nýrra smita á einum degi frá upphafi faraldursins í Líbanon.

En fyrir var staðan alvarleg. Miklar efnahagsþrengingar og spillt stjórnarfar ógna stöðu líbönsku þjóðarinnar auk þess sem heilbrigðiskerfið undir miklu álagi vegna Covid-19 faraldursins. Síðast en ekki síst er staða kvenna almennt slæm – en Líbanon mælist nr. 139 (af 153 ríkjum) í mælingu Alþjóðaefnahagsráðsins (WEF).

Efnahagskreppa skall á í Líbanon í fyrra, árið 2019 og versnaði með tilkomu Covid-19 faraldursins. Búist er við að eftirköst sprenginganna muni ýta enn frekar undir efnahagslega neyð þjóðarinnar og þar af stöðu kvenna. Ljóst er að heimilisofbeldi hefur aukist í Líbanon, líkt og víða um heim. Áætlað er að atvinnuþátttaka kvenna muni dragast saman um 14-19% og en fátækar konur eru mun líklegri til að búa við fæðuóöryggi, atvinnuleysi, hafa síður aðgang að félagslegri vernd og eiga í aukinni hættu á að vera beittar ofbeldi.

Konur og stúlkur á vergangi og eða á flótta eru afar berskjaldaðar fyrir ofbeldi, neyðarskýli eru yfirfull, skortur á friðhelgi/einkalífi er mikill og þær hafa takmarkað aðgengi að salernis- og hreinlætisaðstöðu auk þess sem skortur er á kynjaskiptingu á salernum og í sturtum sem ýtir undir óöryggi kvenna.

Vissir þú að:

 • Árið 2019 sögðu 23% kvenna hafa upplifað eða þekktu konu sem hefði upplifað „sextortion“ (gert að veita aðgang að líkama sínum fyrir að hljóta opinbera/almannaþjónustu)
 • Aukin hætta á kynferðislega misneytingu (sexual explotation) og misnotkun er mikil
 • Í kjölfar efnahagshrunsins og Covid-19 faraldursins hefur ofbeldi gegn konum farið stigvaxandi í Líbanon
 • Í kjölfar útgöngubanna vegna Covid-19 er kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi og kynferðisleg mistnotkun að aukast
 • Í úttekt UN Women í Líbanon kemur fram að 54% svarenda finni aukningu á kynbundnu ofbeldi innan veggja heimila sem og í almannarýminu og nærsamfélagi.

UN WOMEN ER Á STAÐNUM

UN Women er á staðnum og veitir kvenmiðaða neyðaraðstoð og samhæfir neyðaraðstoð þannig að tekið sér tillit til kyns og þarfa kvenna. UN Women leggur áherslu á að ná til jaðarsettra hópa – eldri kvenna, unglingsstúlkna, kvenna og stúlkna með fatlanir og kvenna á flótta.

Verkefni UN Women í Líbanon snúa að því að:

 • Setja á stofn neyðarlínu fyrir þolendur kynbundins ofbeldis
 • Veita konum og stúlkum örugg svæði
 • Veita sálræna aðstoð í kjölfar áfallastreitu
 • Aðstoða konur við að koma undir sig fótunum, fá atvinnutækifæri og veita þeim félagslega vernd og viðeigandi þjónustu innan kerfisins
 • Veita konum störf á vegum ríkisins við uppbyggingu eftir sprenginguna, við umönnun særðra og veikra, störf í götueldhúsum og störf við innlenda framleiðslu á nauðsynjum.
 • Taka utan ofbeldismál gegn konum á heildstæðan hátt vísa áfram innan kerfisins
 • Kosta og skapa konum atvinnutækifæri (e. Cash for work) með sjálfbærni að leiðarljósi
 • Styðja tæknilega og fjárhagslega við kvennasamtök í Líbanon

ÞÚ GETUR HJÁLPAÐ

Konur og stúlkur í Líbanon þurfa á þínum stuðningi að halda. Með því að senda stakan styrk styður þú við verkefni UN Women í Líbanon.

Related Posts