fbpx

Griðastaðir fyrir flóttakonur frá Sýrlandi

Heim / Fréttir / Griðastaðir fyrir flóttakonur frá Sýrlandi
10333494 1634940766718183 2585792760925711152 o
Sýrlenskar flóttakonur eiga oft erfitt uppdráttar í flóttamannabúðum. Þær hafa takmarkaðan aðgang að nauðsynlegum hjálpargögnum og búa við skert atvinnutækifæri. Margar hverjar fara ekki frjálsar ferða sinna nema með fjölskyldumeðlim sér við hlið. Það erfiðar konum við atvinnuþátttöku innan flóttamannabúðanna, við að mennta sig og taka þátt í félagsstarfi.
UN Women hefur undanfarin þrjú ár starfrækt nokkurskonar griðastaði fyrir konur og börn í fjórum flóttamannabúðum í Jórdaníu þ.á.m í Zaatari-búðunum. Komið hefur verið upp hárgreiðslustofu, tölvustofu þar sem þær sækja tölvunámskeið, saumastofu þar sem saumuð eru m.a. ungbarnaföt fyrir sjúkrahús búðanna og barnaheimili. Um 800 konur nýta sér þjónustu athvarfsins í hverjum mánuði.
Einnig er mikill skortur á sérfræðiþjónustu fyrir konur og börn sem þurft hafa að þola kynbundið ofbeldi í flóttamannabúðunum. Í samstarfi við aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og jórdönsk stjórnvöld, hratt UN Women af stað verkefni sem miðar að því að bæta aðgengi þolenda kynbundins ofbeldis að alhliða stuðningskerfi þar sem sameinast heilsugæsla, sálfræðimeðferðir og lögfræðiþjónusta.
Ljóst þykir að eftir því sem teygist úr átökunum í Sýrlandi, og dvöl flóttamannanna lengist, eru meiri líkur á því að aðstæður kvenna og stúlkna versni.
Athvarfið samanstendur af níu gámum og er rekið í samstarfi við konurnar sem búa í búðunum.
Þá hefur UN Women komið upp svipaðri aðstöðu í Al-Hussein, Der-Allah, Hittin og Irbid flóttamannabúðunum en þar hafa yfir hundruðir kvenna hlotið öfluga starfsþjálfun.
Fyrir utan efnahagslega valdeflingu er starfsemi líkt og þessi mikilvæg fyrir sjálfstraust kvenna og stúlkna. Í athvörfunum fá þær einnig tækifæri að stunda ensku- og frönskunám, íþróttir, mósaíkgerð og myndlist.
Margar konurnar í athvörfum UN Women hafa fundið von, öryggi og gleði í fyrsta skipti eftir hörmuleg átök og upplifanir.
„Eiginmaðurinn minn slasaðist og getur því ekki unnið. Ég tók að mér að sjá fyrir okkur og börnunum okkar þremur. Fyrir einskæra tilviljun var mér sagt frá saumastofu UN Women og hingað er ég mætt. Þetta er það besta sem hefur komið fyrir mig síðan við flúðum frá Sýrlandi fyrir þremur mánuðum,“ segir hin 36 ára Fatima.
Þess utan stuðlar vinnuframlag kvennanna að nýju viðhorfði um hlutverk kynjanna innan fjölskyldunnar. Konurnar eru stoltar af því að vera fyrirvinna heimilisins og með því að taka þátt í verkefni UN Women eru þær að standa fyrir breytingum í eigin samfélagi.
Hin 36 ára Hajar lýsir aðstæðunum vel: „ Ég flúði Sýrland ásamt börnunum mínum fimm því að lífi elsta sonar míns var ógnað. Ég skildi eftir eiginmanninn minn og allar eignir og lagði af stað út í óvissuna. Þegar ég kom í búðirnar var ég orðin þunglynd og hafði litla löngun til þess að vera í kringum fólk. Ég gat ekki gert neitt nema grátið.“ Hajar starfar í dag sem klæðskeri á saumastofu UN Women og líf hennar hefur tekið stakkaskiptum. „ Ég finn fyrir von. Við erum örugg og ég hlakka til að geta snúið heim til Sýrlands þegar þar ríkir friður og öryggi.“
Related Posts