fbpx

Kaffiunnendur veita sýrlenskum konum kraft

Heim / Fréttir / Kaffiunnendur veita sýrlenskum konum kraft

kraftur BORDI nyr-01UN Women á Íslandi og Kaffitár skora á kaffiunnendur að bæta 100 krónum við kaffidrykkinn sinn dagana 4. – 13. september og veita þannig konum í fátækustu löndum heims kraft til þess að búa sér og börnum sínum betra líf og framtíð.

Er þetta í annað sinn sem UN Women á Íslandi og Kaffitár leiða saman hesta sína í átakinu Kraftur til kvenna. Í fyrra létu landsmenn ekki sitt eftir liggja og létu óhikað fé af hendi rakna til styrktar konum og stúlkum í fátækustu löndum heims.
Í ljósi mesta flóttamannavanda seinni tíma tileinka UN Women og Kaffitár átakið sýrlenskum flóttakonum og – stúlkum í ár. En talið er að um tvær milljónir kvenna og stúlkna séu á flótta utan landsteina Sýrlands.
Sýrlenskar flóttakonur eiga oft erfitt uppdráttar í flóttamannabúðum. Þær hafa takmarkaðan aðgang að nauðsynlegum hjálpargögnum og búa við skert atvinnutækifæri. Margar hverjar fara ekki frjálsar ferða sinna nema með fjölskyldumeðlim sér við hlið. Það erfiðar konum við atvinnuþátttöku innan flóttamannabúðanna, við að mennta sig og taka þátt í félagsstarfi.
UN Women hefur undanfarin þrjú ár starfrækt nokkurskonar griðastaði fyrir konur og börn í fjórum flóttamannabúðum í Jórdaníu þ.á.m í Zaatari-búðunum. Komið hefur verið upp hárgreiðslustofu, tölvustofu þar sem þær sækja tölvunámskeið, saumastofu þar sem saumuð eru m.a. ungbarnaföt fyrir sjúkrahús búðanna og barnaheimili. Um 800 konur nýta sér þjónustu athvarfsins í hverjum mánuði.
Einnig er mikill skortur á sérfræðiþjónustu fyrir konur og börn sem þurft hafa að þola kynbundið ofbeldi í flóttamannabúðunum. Í samstarfi við aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og jórdönsk stjórnvöld, hratt UN Women af stað verkefni sem miðar að því að bæta aðgengi þolenda kynbundins ofbeldis að alhliða stuðningskerfi þar sem sameinast heilsugæsla, sálfræðimeðferðir og lögfræðiþjónusta.
Ljóst þykir að eftir því sem teygist úr átökunum í Sýrlandi, og dvöl flóttamannanna lengist, eru meiri líkur á því að aðstæður kvenna og stúlkna versni.

Þess ber að geta að Kaffitár greiðir allan kostnað við verkefnið. Þetta er frábært framtak af þeirra hálfu og gerir okkur kleift að senda hverja einustu krónu sem fólk leggur aukalega við kaffibollann til sýrlenskra flóttakvenna og barna þeirra.

Við hvetjum því landsmenn til að greiða 100 krónur aukalega við Kaffitár-drykkinn og styrkja um leið þetta brýna verkefni.

Saman erum við sterkari!

Related Posts