Ég finn fyrir von

Home / Fréttir / Ég finn fyrir von

20130317 jordanSyriaRefugees TailoringWorkshop YaraSharif Fatima 300x200„Eiginmaðurinn minn slasaðist og getur því ekki unnið. Ég tók það að mér að sjá fyrir okkur og börnunum okkar þremur. Fyrir einskæra tilviljun var mér sagt frá saumastofu UN Women og hér er ég mætt. Þetta er það besta sem hefur komið fyrir mig síðan við flúðum frá Sýrlandi fyrir þremur mánuðum,“ segir hin 36 ára Fatima.

Fatima er ein þeirra kvenna sem nýtur góðs af athvarfi eða griðastöðum á vegum UN Women í Zatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu við landamæri Sýrlands.
Þessir griðastaðir samanstanda af níu gámum og er reknir í samstarfi við konurnar sem búa í búðunum. Þar hefur verið komið upp klæðskerastofu og hárgreiðslustofu fyrir konur sem eru menntaðar í þeim efnum. Á saumastofunni er meðal annars unnið við að sauma ungbarnaföt fyrir sjúkrahús búðanna. Um 800 konur njóta góðs af athvarfinu í hverjum einasta mánuði.
Þá hefur UN Women komið upp svipuðum aðstöðum í Al-Hussein, Der-Allah, Hittin og Irbid flóttamannabúðunum en þar er einnig boðið upp á öfluga starfsþjálfun í hárgreiðslu, tölvuvinnslu, saumaskap og sápugerð svo dæmi séu nefnd.
Starf UN Women í flóttamannabúðunum er mjög mikilvægt því þar fá konur og stúlkur tækifæri til þess að afla sér þekkingar og starfsþjálfunar til þess að geta framfleytt sér og fjölskyldum sínum.
Fyrir utan efnahagslega valdeflingu er starfsemi líkt og þessi mikilvæg fyrir sjálfstraust kvenna og stúlkna. Í athvörfunum fá þær einnig tækifæri til að stunda ensku- og frönskunám, íþróttir, mósaíkgerð og myndlist. Ekki síst stuðlar vinnuframlag kvennanna að nýju viðhorfði um hlutverk kynjanna innan fjölskyldunnar. Konurnar eru stoltar að því að vera fyrirvinna heimilisins og með því að taka þátt í verkefni UN Women eru þær að standa fyrir breytingum í eigin samfélagi. Lesa nánar um verkefnið.
Hin 36 ára Hajar lýsir aðstæðunum vel: „ Ég flúði Sýrland ásamt börnunum mínum fimm því að lífi elsta sons mína var ógnað. Ég skildi eftir eiginmanninn minn og allar eignir og lagði af stað út í óvissuna. Þegar ég kom í búðirnar var ég orðin þunglynd og hafði litla löngun til þess að vera í kringum fólk. Á vissum tímapunkti gat ég ekki gert neitt nema grátið.“ Hajar starfar í dag sem klæðskeri á saumastofu UN Women og líf hennar hefur tekið stakkaskiptum. „Ég finn fyrir von. Við erum örugg og ég hlakka til að geta snúið heim til Sýrlands þar sem ríkir friður og öryggi.“

Related Posts