fbpx

Gaza: 15.000 konur og stúlkur fá lífsnauðsynlega neyðaraðstoð

Heim / Fréttir / Gaza: 15.000 konur og stúlkur fá lífsnauðsynlega neyðaraðstoð

15.000 konur og stúlkur á Gaza munu fá lífsnauðsynlega neyðaraðstoð, vegna samstarfs UN Women og mannúðarstofnunarinnar Jordan Hashemite Charity Organization (JHCO) í Jórdaníu. Fyrsta sendingin frá Jórdaníu fór í dag með fraktflugvél til Al-Arish með nauðsynjum til að veita konum og stúlkum á Gaza-svæðinu lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð. Aðgerðin var studd af Jórdaníuher.

Mynd: UN Women / Bashar Al-Jabari

„Samkvæmt neyðarákalli Sameinuðu þjóðanna (e. UN Flash Appeal) fyrir hernumdu landsvæði Palestínu (OPT) hefur UN Women átt í samstarfi við Jordan Hashemite Charity Organization um að styðja við konur á Gaza. Aðgerðirnar eru í samráði við skrifstofur okkar í OPT,“ sagði Nicolas Burniat, landsfulltrúi UN Women í Jórdaníu. „UN Women hrósar stjórnvöldum í Jórdaníu fyrir öflugan málflutning þeirra gagnvart alþjóðasamfélaginu, fyrir vopnahléi og fyrir óbilandi viðleitni þeirra til að styrkja afhendingu mannúðaraðstoðar til Gaza og sérstaklega stuðning þeirra við konur og stúlkur,“ bætti hann við.

Meira en 1,9 milljónir fólks  – eða 85% af heildaríbúum Gaza – hefur verið á flótta vegna yfirstandandi hernaðaraðgerða Ísraelshers. Þar á meðal eru ein milljón kvenna og stúlkna sem ganga í gegnum óbærilegar þjáningar, sjúkdóma og yfirvofandi hungursneyð. Helmingur þeirra hefur leitað skjóls í Rafah þar sem þær óttast um líf sitt og geta hvergi farið. Nýlegar tölur benda til þess að 70 prósent Palestínufólks sem hefur fallið í stríðinu á Gaza hingað til hafi verið konur og börn og að tvær mæður séu drepnar þar á klukkutíma fresti.

„Samstarfið við UN Women endurspeglar sameiginleg markmið okkar um að styðja viðkvæm samfélög og veita aðstoð á krísutímum. Saman vinnum við að því að tryggja að konur og börn á Gaza fái þann stuðning sem þau þurfa nauðsynlega á að halda,“ sagði Dr. Hussein Al Shebli, framkvæmdastjóri JHCO.

Auk þessa stefnir UN Women, í samstarfi við World Food Programme, að því að koma reiðufé og matarkörfum til 75.000 kvenna og fjölskyldna þeirra. Nýlega afhentu UN Women og Rauði hálfmáninn í Egyptalandi 7.000 konum og börnum á Gaza helstu nauðsynjar.

Þar að auki er UN Women í samstarfi við stofnanir undir forystu kvenna við að veita kvenmiðaða þjónustu og takast á við mismunandi áskoranir sem konur og stúlkur á Gaza standa frammi fyrir, þar á meðal hvað varðar vernd og vellíðan.

UN Women heldur áfram að krefjast mannúðarvopnahlés tafarlaust og þess að allt kapp verði lagt á að tryggja konum og stúlkum vernd, ásamt öruggum og óhindruðum aðgangi að kvenmiðaðri neyðaraðstoð án tafar.

 

Neyðin er gríðarleg – þú getur lagt þitt af mörkum!

UN Women hefur starfað í Palestínu frá árinu 1997 og starfrækt þar ýmis verkefni í þágu kvenna og stúlkna. Við erum á vettvangi og munum áfram veita mikilvægan stuðning og aðstoð.

UN Women á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun fyrir konur á Gaza og fjölskyldur þeirra sem búa við gríðarlega erfiðar aðstæður. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að:

  • Kaupa mömmupakka eða neyðarpakka í gjafaversluninni okkar 
  • Sendu sms-ið KONUR í númerið 1900*
  • Leggðu til frjáls framlög í gegnum AUR í númerið 123-839-0700
  • Leggðu til frjáls framlög í banka:
    • 0537–26–55505
    • 551090-2489

(*hvert sms kostar 2.900 kr – gildir aðeins hjá Símanum, Hringdu og Nova). 

Related Posts