fbpx

Afganistan: Löngu tímabært að skilgreina kynjaaðskilnaðarstefnu sem glæp gegn mannkyninu

Heim / Fréttir / Afganistan: Löngu tímabært að skilgreina kynjaaðskilnaðarstefnu sem glæp gegn mannkyninu

,,Vaxandi alþjóðlegar áskoranir krefjast þess að kynjaaðskilnaðarstefna verði viðurkennd sem glæpur gegn mannkyninu.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna sendu frá sér í síðustu viku, í kjölfar sérstaks fundar sem haldinn var í Doha um stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan. „Það myndi gera alþjóðasamfélaginu kleift að bera betur kennsl á- og takast á við árásir starfandi stjórnvalda á afganskar konur og stúlkur,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Afgönsk kona í Kabúl. Mynd: UN Women

Á fundinum, sem haldinn var á vegum SÞ og stóð yfir í tvo daga, voru saman komnir fulltrúar frá yfir 20 ríkjum. Þar á meðal voru fulltrúar frá borgarasamfélaginu í Afganistan sem hafa engin tengsl við ríkjandi stjórnvöld. Talíbanastjórnin afþakkaði hins vegar boð á fundinn.

Allt frá því að talíbanar tóku völdin í Afganistan í ágúst 2021 hafa þeir unnið markvisst að því að skerða réttindi kvenna og stúlkna og hefta aðgengi þeirra að opinberum rýmum. Þá hefur Afganistan verið nær alveg einangrað frá alþjóðasamfélaginu síðan valdatakan átti sér stað.

„Kynjaaðskilnaðarstefna er ekki aðeins hugtak, heldur raunveruleg ógn og veruleiki fyrir milljónir kvenna og stúlkna um allan heim – veruleiki sem er ekki sérstaklega lögfestur í alþjóðalögum,“ sögðu sérfræðingar SÞ jafnframt. Um fimm manna nefnd er að ræða með fulltrúum frá Mexíkó, Bandaríkjunum, Kína, Serbíu og Úganda og sagði nefndin að þetta væri löngu tímabært skref.

Möguleg þátttaka Afganistan í alþjóðasamfélaginu var einnig rædd á fundinum í Doha og sagðist Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri SÞ, á blaðamannafundi vera að hefja samráð um að skipa sérstakan sendifulltrúa SÞ til að stuðla að- og samræma samskipti milli höfuðborgarinnar Kabúl og alþjóðasamfélagsins.

Related Posts