fbpx

Afganistan: Hafa skapað kerfi sem byggir á algjörri kúgun kvenna

Heim / Fréttir / Afganistan: Hafa skapað kerfi sem byggir á algjörri kúgun kvenna

Konur bíða fyrir utan heilsugæslu sem sinnir konum, þeirri einu sem starfrækt er í öllu landinu.

Framkvæmdastýra UN Women segir mikilvægt að alþjóðasamfélagið haldi áfram að þrýsta á breytingar í þágu kvenna og stúlkna í Afganistan. Hún sakar talíbana um „kerfislæga árás á mannréttindi kvenna og stúlkna sem á sér hvergi hliðstæðu í heiminum“.

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, sendi frá sér yfirlýsingu þann 15. ágúst, en þann dag voru tvö ár frá valdatöku talíbana í Afganistan. Frá valdatökunni hafa afganskar konur og stúlkur misst öll helstu grundvallarmannréttindi sín. Þær mega ekki vinna, ferðast utan heimilisins fylgdarlausar og fá ekki að mennta sig. Þá hafa fráskildar konur verið þvingaðar aftur til fyrrverandi eiginmanna sinna, sem oft beittu þær ofbeldi, og um leið átt yfir höfði sér dóm fyrir hjúskaparbrot.

Aðskilnaðarstefna ríkir í Afganistan

Talíbanar hafa komið á yfir fimmtíu opinberum tilskipunum, reglum og takmörkunum sem snerta alla þætti lífs kvenna og stúlkna í landinu. Þeir hafa skapað kerfi sem byggir á algjörri kúgun kvenna og er réttilega talin vera hrein kynjaaðskilnaðarstefna,“ sagði Sima Bahous í yfirlýsingu sinni.

„Ég hvet talíbana til að endurskoða þessar ákvarðanir og íhuga kostnaðinn sem hlýst af þeim fyrir framtíð Afganistans.“

Gefast ekki upp

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women.

Framkvæmdastýran ítrekaði stuðning UN Women við afganskar konur og segir stofnunina ekki vera á förum frá landinu. Hún kallar eftir auknum stuðningi frá alþjóðsamfélaginu, m.a. fjármagni til þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem starfa í landinu og með því að veita afgönskum konum vettvang til að tjá sig opinberlega.

„Þrátt fyrir þetta mótlæti, hafa afganskar konur sagt mér að þær munu ekki láta deigan síga eða gefast upp fyrir talíbönum. Þær halda áfram að tala gegn þessum mannréttindabrotum, halda áfram að veita lífsbjargandi aðstoð til samlanda sinna og þrátt fyrir boð og bönn halda þær áfram að reka fyrirtæki og kvenréttindafélög. Hugrekki þeirra verður að vera okkur innblástur til stórtækari aðgerða.“

UN Women, líkt og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, á í stöðugu samtali við talíbanastjórnina svo hægt sé að tryggja áframhaldandi störf í landinu og öryggi starfsfólks og afgönsku kvennanna sem nýta sér þjónustu UN Women. Meðal verkefna UN Women í Afganistan eru mannréttindagæsla og fjölbreytt verkefni sem stuðla að jafnrétti og sjálfbærni og hafa það að leiðarljósi að setja raddir afganskra kvenna og þarfir þeirra í forgang.

Related Posts