fbpx

Tvö ár frá valdatöku talíbana í Afganistan

Heim / Fréttir / Tvö ár frá valdatöku talíbana í Afganistan

Mynd: UN Women/Habib Sayed Bidell

Tvö ár eru frá því að talíbanar tóku völd í Afganistan í annað sinn. Síðan þá hefur veruleiki kvenna og stúlkna í ríkinu umturnast og búa þær við kúgun, áreiti og ofbeldi. Konur og stúlkur í Afganistan hafa misst öll helstu grundvallarmannréttindi sín, þær mega ekki stunda nám, hafa verið hraktar af vinnumarkaðnum og ferða- og tjáningarfrelsi þeirra hefur verið skert verulega. Öll sú vinna sem hefur verið unnin í átt að jafnrétti kynjanna þar síðastliðna áratugi er orðin að engu og misréttið hefur áhrif á allt þeirra líf.

Þrátt fyrir mótlætið hafa afganskar konur og stúlkur mætt ógnarstjórn og kúgunaraðferðum talíbana með óttalausri seiglu og baráttuhug og þær halda áfram að mótmæla, veita viðnám og tjá sig. Baráttan fyrir réttindum kvenna er hörð alls staðar í heiminum. En hvergi hafa fleiri líf verið háð henni en í Afganistan núna.

Raddir afganskra kvenna og stúlkna þurfa að heyrast 

Til að skrásetja og deila reynslu og lífi kvenna og stúlkna í Afganistan með heiminum, hefur UN Women búið til stafrænt rými með frásögnum þeirra. Rýmið ber heitið ,,After August“ (ísl. Eftir ágúst) og undirstrikar þannig breyttan veruleika eftir valdatökuna þann 15. ágúst árið 2021. ,,After August” er andsvar við tilraun talíbana til að gera afganskar konur ósýnilegar og er byggt á því sjónarmiði að þegar óréttlæti er orðið að daglegu brauði er þögnin óafsakanleg.  

,,Við vorum áreittar, lamdar og fangelsaðar“frásögn „Adela“

Hér eftirfarandi er frásögn afganskrar konu sem hefur fengið dulnefnið ,,Adela*” til að tryggja öryggi hennar. Adela er kennari, mótmælandi og baráttukona í Kabúl sem berst gegn ógnarstjórn talíbana á hverjum degi og vonar að réttlætið sigri að lokum:  

Fyrir ágúst 2021 var ég kennari. Eftir ágúst 2021 fékk ég að kynnast köldum veruleika konu sem býr í íhaldssömu feðraveldissamfélagi og ég tók þátt með öðrum konum í mótmælum sem við skipulögðum sjálfar í maí, gegn talíbanastjórninni í Afganistan. 

Þegar talíbanar tóku stjórnina í ágúst síðastliðnum og komust til valda í annað sinn, var ég hrædd um að við myndum hverfa aftur til fortíðar. Ég var hrædd um að talíbanar myndu loka stúlknaskólum, að þeir kæmu í veg fyrir þátttöku kvenna á vinnumarkaðnum og að þeir myndu steina konur opinberlega til að refsa þeim. Hluti af mínum versta ótta hefur ræst síðan þá. 

Nokkrum vikum eftir fall Kabúl fór ég út á göturnar og ákvað að mæta talíbönum. Ég fór út á göturnar til að berjast fyrir mannréttindum mínum og réttindum móður minnar, systur, dóttur og þeirra þúsunda nemenda sem leituðu til mín til að fá innblástur.  

Ég faðmaði börnin mín tvö á hverjum degi. Ég var hrædd um að talíbanar myndu taka þau frá mér. En á hverjum degi fór ég meðvituð og af ábyrgð og heiðarleika, út á göturnar til að berjast jafnvel enn meira en fyrri daginn.  

Hundruðir kvenna gengu til liðs við okkur á götum Kabúl, Parwan, Kapisa, Panjshir, Takhar, Badakhshan, Helmand, Kandahar, Mazar og á fleiri stöðum. Prófessorar, læknar, fyrrum ríkisstarfsfólk, kvenkyns aðgerðasinnar á sviði mannréttinda og leiðtogar borgaralegs samfélags komu allar saman, særðar eftir valdatöku talíbana, til að krefjast grundvallarmannréttinda okkar og berjast gegn takmörkunum talíbana á réttindi okkar til að vinna, fá aðgang að menntun og nýta einstaklingsbundið ferða- og tjáningarfrelsi okkar. 

Á meðan á þessari baráttu stóð var okkur hótað, við vorum áreittar, lamdar og jafnvel fangelsaðar af talíbönum. Ég mun aldrei gleyma afhöggnu höfði Furozan, brotnu höfði Nargis, brenndu andliti Medina, ónýtu auga Marjan og hrottalegri handtöku svo margra kvenna. Ég mun ekki gleyma þeim þúsundum kvenna sem sitja í fangelsum talíbana og við vitum ekki nein deili á ennþá. 

Talíbanar umkringdu okkur margoft og reyndu að stöðva mótmæli okkar með raflosti og piparúða, en við tókum upp rifflana þeirra með berum höndum og héldum áfram göngunni. 

Einu sinni á meðan á mótmælum stóð sparkaði talíbani svo fast í mig að ég féll til jarðar. Ég sá svart og ég hélt að ég myndi missa kraftinn, en ég stóð upp og hrópaði enn hærra: „Brauð, vinna, frelsi!“ 

Ég mun aldrei þegja þunnu hljóði frammi fyrir kúgun. Það hefur orðið ábyrgð mín og skylda sem manneskja… og ég vona að ég muni aldrei beygja mig fyrir grimmd og villimennsku og að rödd mín verði ekki rödd stjórnmála heldur rödd manngæsku. 

Ég þrái sigur frelsisins úr þessari ánauð og ég mun halda áfram að berjast fyrir betri framtíð fyrir landið mitt. 

*Nöfnum, staðsetningum og atburðarás hefur verið breytt í frásögnum kvennanna til að tryggja öryggi þeirra. 

 

Lestu fleiri frásagnir hér

 

UN Women í Afganistan 

UN Women er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að jafnrétti kynjanna og eflingu kvenna. UN Women styrkir verkefni sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum, draga úr fátækt og stuðla að efnahagslegri og pólitískri valdeflingu auk þess að veita konum sjálfsögð mannréttindi. UN Women vinnur eftir þeirri hugmyndafræði að þegar konur eru heilbrigðar, menntaðar og þátttakendur í hagkerfinu nái ávinningurinn til barna þeirra, samfélaga og þjóða. Þetta leiðarstef á einnig við um vinnu UN Women í Afganistan. 

Á síðustu tveimur árum hefur ríkjandi stjórn í Afganistan unnið ötullega að því að grafa undan réttindum kvenna og stúlkna þar með tilskipunum og ógnarstjórn sem hefur áhrif á alla þætti afganska samfélagsins. UN Women hefur sinnt verkefnum í Afganistan í tuttugu ár og á í nánu samstarfi við afganskar konur. Breyttar aðstæður kalla á nýjar aðferðir og hefur stofnunin og starfsfólk hennar þurft að bregðast hratt við gjörbreyttu samfélagi eftir valdatöku talíbana. UN Women, líkt og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, á í stöðugu samtali við talíbanastjórnina svo hægt sé að tryggja áframhaldandi störf í landinu og öryggi starfsfólks og afgönsku kvennanna sem nýta sér þjónustu UN Women. Meðal verkefna UN Women í Afganistan eru mannréttindagæsla og fjölbreytt verkefni sem stuðla að jafnrétti og sjálfbærni og hafa það að leiðarljósi að setja raddir afganskra kvenna og þarfir þeirra í forgang.   

Hér má lesa nánar um verkefni UN Women í Afganistan.

 

 

Myndir: UN Women. Tilvitnanirnar eru úr frásögnum afgönsku kvennanna.

Related Posts