fbpx

Leikur Svía og Spánverja á HM tileinkaður baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi

Heim / Fréttir / Leikur Svía og Spánverja á HM tileinkaður baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi

Leikur Svía og Spánverja var tileinkaður baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi

UN Women og FIFA hafa tekið höndum saman í tengslum við HM kvenna í fótbolta sem stendur nú yfir í Ástralíu og Nýja Sjálandi. Markmið samstarfsins er að hampa hæfileikum og árangri þeirra mögnuðu íþróttakvenna sem keppa á mótinu og að vekja athygli á þeim ójöfnuði og kynbundnu ofbeldi sem konur þurfa að glíma við utan og innan vallar.

Tækifærin alls ekki þau sömu

Um allan heim búa konur við ójöfn tækifæri samanborið við karla, þetta á einnig við á sviði íþrótta. Íþróttakonur hljóta ekki sömu tækifæri til íþróttaiðkunar og karlmenn, þær fá ekki greidd sömu laun (afreksíþróttakonur fá u.þ.b. 1% af launum afreksíþróttamanna), fá síður styrktaraðila (0,4% af öllum íþróttastyrkjum í heiminum árin 2011 og 2013 fóru til kvenna) og ekki er sýnt jafn oft frá keppnisleikjum þeirra í sjónvarpi.

Þær íþróttakonur sem ná árangri þrátt fyrir þetta sæta oft mikilli gangrýni og áreitni innan vallar og utan. Rannsókn sem gerð var af World Athletics í aðdraganda og á meðan á Ólympíuleikunum í Tókýó stóð árið 2020 leiddi í ljós að 85% af allri hatursorðræðu í garð þátttakenda var beint að íþróttakonum og þá sérstaklega að svörtum íþróttakonum.

Kynbundið ofbeldi útbreiddasta mannréttindabrot í heimi

Til að bregðast við þessum ójöfnuði ákvað FIFA að þrefalda verðlaunaféð fyrir HM kvenna 2023, sem stendur nú í 150 milljónum bandaríkjadollara, og er þetta liður í þriggja þrepa jafnréttisáætlun samtakanna. Til samanburðar má nefna að verðlaunaféð í HM kvenna árið 2019 var 30 milljónir bandaríkjadollara samanborið við 400 milljónir bandaríkjadollara í HM karla árið 2018.

UN Women, stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir jafnrétti og valdeflingu kvenna, hefur tekið höndum saman við FIFA til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi og stöðu jafnréttis í heiminum í dag. FIFA og UN Women hönnuðu tvö armbönd sem fyrirliðar liðanna geta borið í leikjum til að vekja athygli á málaflokknum.

Á öðru armbandinu stendur „Unite for Gender Equality” og á hinu stendur „Unite for Ending Violence against Women”, en ofbeldi gegn konum og stúlkum er eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum í dag. Talið er að um 736 milljónir kvenna um allan heim, eða 1 af hverjum 3 konum, hafi orðið fyrir kynbundnu ofbeldi einhvern tímann á ævinni.

Undanúrslitin 15. ágúst tileinkuð baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi

Skilaboðunum var varpað á skjái á leikvanginum

Í fyrri undanúrslitaleik HM kvenna í fótbolta þriðjudaginn 15. ágúst, þar sem Spánn lagði Svíþjóð í æsispennandi leik, var slagorð UN Women gegn kynbundnu ofbeldi sýnilegt á LED skjáum á leikvanginum í Auckland, á flöggum og á samfélagsmiðlum.

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, segir afrekskonurnar sem keppa á HM í ár vera fyrirmynd stúlkna um allan heim. „Styrkur þeirra og hæfileikar eru okkur innblástur. Heimsmeistaramótið minnir okkur þó einnig á að enn er gríðarlegur fjöldi kvenna og stúlkna í heiminum sem ekki fá tækifæri til íþróttaiðkunar og þær sem fá á annað borð að taka þátt búa oft við ójöfnuð og í sumum tilfellum ofbeldi og áreitni vegna þess. Mótið er einnig áminning um hverju heimurinn fer á mis við þegar við bregðumst konum og stúlkum og veitum þeim ekki sömu tækifæri og körlum og drengjum.“

 

 

Related Posts