fbpx

Súdan: Konur bregðast við neyðinni

Heim / Fréttir / Súdan: Konur bregðast við neyðinni

Súdanskar konur hafa reynt að bregðast við neyðinni í ríkinu með ýmsum hætti. UN Women/Michael Lusaba

Borgarastríð hófst í Súdan þann 15. apríl og hafa átökin hrakið um 2,8 milljónir á flótta. Flest eru á vergangi innan landamæra Súdans, en um 600 þúsund hafa flúið til nágrannaríkjanna. Mörg hundruð hafa látið lífið í átökunum og mörg þúsund særst.

Fréttir hafa borist af því að hermenn beiti nauðgunum gegn konum og stúlkum og óttast stofnanir Sameinuðu þjóðanna að slíkum málum fari fjölgandi. UN Women í Súdan vinnur náið með nærri 50 kvenreknum félagasamtökum í landinu sem saman mynda bandalagið Peace for Sudan Platform. Þessi félagasamtök hafa reynt að bregðast við þörfum kvenna á átakatímum og veita þeim lífsnauðsynlega aðstoð, en einnig barist fyrir aðkomu kvenna að friðarviðræðum.

Konur orðið fyrir gríðarlegu ofbeldi

Barkhado er aktívisti frá Súdan og ein þeirra er höfðu aðkomu að stofnun Peace for Sudan. Hún er með meistaragráðu í þróunarfræðum og hefur víðtæka reynslu í alþjóðamálum og friðarviðræðum.

„Mikilvægir innviðir hafa eyðilagst í átökunum, þá sérstaklega í Khartoum og Vestur-Darfúr, en stríðið hefur líka lagt samfélagslegt- og stjórnarfarslegt kerfi landsins í rúst. Þetta hefur leitt til þess að almennir borgarar eru myrtir, konum og stúlkum er nauðgað og átök hafa blossað aftur upp á viðkvæmum svæðum, til dæmis í Darfúr. Fjöldi kvenna og stúlkna hafa orðið fyrir gríðarlegu ofbeldi og munu þurfa að glíma við afleiðingar þess út ævina. Ofan á það kemur að þær hafa ekki aðgengi að nauðsynlegri þjónustu, eins og heilbrigðisþjónustu eða fjárstuðningi og geta ekki einu sinni uppfyllt grunnþarfir sínar þar sem aðgengi að hreinu drykkjarvatni er líka skert. Konurnar eru beittar ofbeldi af einstaklingum í herklæðum. Tilkynningum um kynferðisofbeldi gegn konum hefur fjölgað, en vegna ástandsins hefur ekki verið hægt að veita þolendum nauðsynlega þjónustu í kjölfar ofbeldisins.“

Vinna að því að koma á samtali á milli stríðandi fylkinga

„Kvenrekin félagasamtök leika veigamikið hlutverk á þessum tímum. Þau veita húsaskjól, mat, vatn og læknis- og sálræna þjónustu. Þau hafa einnig unnið að því að skrá kynferðisbrot gegn konum og stúlkum. Þessi félagasamtök geta einnig lagt sitt að mörkum þegar kemur að friðarviðræðunum og unnið að því að koma á samtali á milli stríðandi fylkinga.

Peace for Sudan Platform hefur það að markmiði að styðja við framtak kvenna sem hafa reynt að bregðast við ástandinu í ríkinu með ýmsum leiðum. Meðal verkefna Peace for Sudan eru að styðja við þátttöku kvenna í friðarviðræðum, að skapa vettvang fyrir samtal á milli stríðandi fylkinga og að veita lífsnauðsynlega þjónustu á borð við húsaskjól, mat, vatn, hreinlætisvörur, heilbrigðisþjónustu og menntunartækifæri fyrir konur og stúlkur sem orðið hafa að flýja heimili sín.

Peace for Sudan valdeflir einnig konur og hvetur þær til þátttöku í sínum samfélögum. Þá er þetta vettvangur fyrir félagasamtök til að eiga í samtali, skiptast á upplýsingum og deila þekkingu sinni og reynslu,“ útskýrir Barkhado.

Hægt er að lesa fleiri sögur frá Súdan hér.

Hjálparsamtök orðið fyrir markvissum árásum

Ástandið í Súdan er gríðarlega erfitt og það hefur reynst hjálparsamtökum vandasamt að koma vistum til fólks á átakasvæðum, m.a. vegna þess að ekki hefur fengist leyfi fyrir störfum þeirra frá yfirvöldum og vegna árása á bílalestir þeirra, vöruhús og starfsstöðvar. Frá því í apríl hefur tugur hjálparstarfsfólks látið lífið við störf sín og enn fleiri særst. Erfiðast hefur reynst að ná til fólks í Khartoum, Darfur og Kordofan, þar sem átökin eru hvað hörðust.

Þá hafa árásir verið gerðar á sjúkrastofnanir og heilsugæslur og því eiga óbreyttir borgarar erfitt með að nálgast lífsnauðsynlega þjónustu. Talið er að tæplega 270 þúsund konur á átakasvæðunum séu barnshafandi og að um 90 þúsund þeirra séu á síðasta hluta meðgöngu.

Related Posts