fbpx

Súdan: 4 milljónir vannærðar vegna átakanna

Heim / Fréttir / Súdan: 4 milljónir vannærðar vegna átakanna
Súdan, un women, átök

Konur sem sótt hafa þjónustu á vegum UN Women og samstarfsaðila í Súdan. Mynd/UNEP Sudan

Hörð átök brutust út í Súdan þann 15. apríl sem hrakið hafa tugþúsundir á flótta, ýtt milljónum að barmi hungursneyðar og orðið til þess að um 15,8 milljónir, eða um þriðjungur íbúa landsins, eru nú í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð. Talið er að um 4 milljónir barnshafandi og mjólkandi kvenna sem og börn séu nú hættulega vannærð vegna átakanna.

Skelfilegt ástand fyrir barnshafandi konur

Þegar hafa borist fregnir af því að stríðandi fylkingar beiti nauðgunum með markvissum hætti gegn konum og stúlkum í Súdan og óttast UN Women að slíkum fregnum fari fjölgandi eftir því sem átökin dragast á langinn.

Áður en átökin brutust út, hýsti Súdan um 1,3 milljónir einstaklinga á flótta, meðal annars fólk frá Suður-Súdan, Eritreu, Eþíópíu og Sýrlandi. Stór hluti þessa fólks er nú kominn aftur á flótta. Þá hafa um 14.000 einstaklingar þegar flúið yfir landamærin til Egyptalands og um 30.000 til Tsjad, sem þegar hýsti um 400.000 Súdani á flótta.

Í höfuðborginni Khartoum hafa nauðsynlegir innviðir á borð við sjúkrahús, verið gerðir að skotmörkum stríðandi fylkinga. Þetta stefnir lífi og heilsu fólks í enn frekari hættu og hefur skelfileg áhrif á heilsu barnshafandi kvenna sem neyðast til að fæða börn sín við afar óöruggar og óviðunandi aðstæður, sem margfaldar líkur á mæðra- og ungbarnadauða.

  • 1,7 milljarða bandaríkjadali þarf til að veita 12,5 milljónum nauðsynlega mannúðaraðstoð. Aðeins hefur tekist að tryggja 13,5% af því fjármagni
  • 1 af hverjum 3 Súdönum er í þörf fyrir mannúðaraðstoð
  • Meira en 20 sjúkrahús hafa neyðst til að leggja niður allt starf sitt vegna átakanna, m.a. vegna skorts á lyfjum og nauðsynlegum tækjum, vegna eyðileggingar eða vegna þess að þau hafa verið hertekin

 

Hvað gerir UN Women í Súdan?

UN Women vinnur náið með grasrótar- og félagasamtökum í Súdan til að greina þarfir kvenna og stúlkna á þessum hættulegu tímum. Þetta gerir UN Women til að tryggja að konur og stúlkur í Súdan hljóti viðeigandi aðstoð. UN Women starfar jafnframt með öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna við að veita lífsbjargandi aðstoð á þessum neyðartímum, m.a. hreinlætisvörur, sálræna aðstoð og áfallahjálp og fjárhagsaðstoð án skuldbindinga.

Hvernig getur þú hjálpað?

Mikilvægasta verkefni UN Women núna er að tryggja að konur og stúlkur í Súdan hljóti þá þjónustu og aðstoð sem þær þurfa nauðsynlega á að halda. Til þess þurfum við fjármagn! Þú getur hjálpað konum og stúlkum í Súdan með því að senda SMS-ið KONUR (1.900 kr) í númerið 1900 eða með því að styðja starf UN Women á Íslandi með stökum styrk.

3.500 krónur geta veitt konu í Súdan helstu nauðsynjavörur á borð við tíðar- og hreinlætisvörur

6.500 krónur geta veitt einstæðum mæðrum og fjölskyldum þeirra matarbirgðir sem endast í þrjá daga

13.000 krónur geta veitt konum og fjölskyldum þeirra sálrænan stuðning og áfallahjálp á þeirra móðurmáli. Slíkur stuðningur er gríðarlega mikilvægur þegar einstaklingar hafa upplifað hörmungar á borð við stríð og vopnuð átök.

Related Posts