fbpx

Yfirlýsing Simu Bahous vegna vopnaðra átaka í Súdan

Heim / Fréttir / Yfirlýsing Simu Bahous vegna vopnaðra átaka í Súdan

Sima Sami Bahous framkvæmdastýra UN Women.

UN Women lýsir yfir áhyggjum af þeim hræðilegu fregnum sem berast frá Súdan. Framkvæmdastýra UN Women, Sima Sami Bahous, segir stofnunina standa með Súdönum og að áfram verði unnið að því að veita konum og stúlkum í landinu lífsbjargandi aðstoð. Í yfirlýsingu sem Bahous sendi frá sér, segir hún vopnuð átök ávallt bitna verst á þeim sem standa hvað höllustum fæti innan samfélagsins.

„UN Women tekur undir orð annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna og lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu mála í Súdan. Við vitum að átök og neyð hafa sérstaklega neikvæð áhrif á líf kvenna og stúlkna. Við stöndum sameinuð með almenningi í Súdan og erum staðráðin í að styðja við þau með öllum ráðum.  

Seigla súdanskra kvenna veitir okkur vonarglætu og er þátttaka þeirra í friðarumleitunum nauðsynleg. Sem starfskonur mannúðarsamtaka hafa þær sýnt okkur ótrúlegan styrk sinn og þær veita okkur innblástur í hlutverkum sínum sem verndarar. Við verðum að hlýða á ákall þeirra eftir vopnahléi og friði og styðja við þær í öllu sem þær taka sér fyrir hendur.

Við höfum þegar heyrt af tilfellum kynferðisofbeldis í tengslum við átökin. Við óttumst að þeim tilfellum muni aðeins fjölga á næstu dögum. UN Women kallar eftir því að  öryggi kvenna og stúlkna verði tryggt og að allir sem eigi hlut að átökunum leggi sitt af mörkum til að takmarka áhrif þeirra á líf kvenna og stúlkna. Það má heldur ekki verða svo að gerendur búi við refsileysi, heldur verður að tryggja að öll kynferðisbrot verði rannsökuð til hlítar og sótt til saka.  

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur kallað eftir tafarlausu vopnahléi á meðan Eid-Al-Fitr stendur yfir. Slíkt vopnahlé mundi veita mannúðarsamtökum færi á að koma helstu nauðsynjum til almennings og stríðandi fylkingum færi á að hefja samtal að nýju. Þá fer hann fram á að alþjóðalög séu virt. Ég tek undir ákall hans og hvet alla hlutaðeigandi til að komast að friðsælli niðurstöðu.“

Fjórir starfsmenn SÞ látið lífið

Bahous vitnar í yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, þar sem hann kallar eftir þriggja daga vopnahléi. Guterres segir ómögulegt að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð við þær kringumstæður sem nú ríkja í landinu.

Alls starfa um 4.000 einstaklingar hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Súdan, þar af eru um 3.200 súdanskir ríkisborgarar. Fjórir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa þegar látið lífið við störf sín.

Samkvæmt upplýsingum frá OCHA hafa sjúkrahús verið gerð að ítrekuðum skotmörkum hermanna, sem hafa einnig rænt sjúkrabílum með sjúklingum og sjúkraflutningafólki innanborðs. Þá hafa borist fréttir af gripdeildum hermanna og að hersveitir hafi gert sjúkrabyggingar að bækistöðvum sínum.

Related Posts