fbpx

UN Women á Íslandi undirritar samning við utanríkisráðuneytið

Heim / Fréttir / UN Women á Íslandi undirritar samning við utanríkisráðuneytið

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, undirritaði fyrir hönd landsnefndarinnar rammasamning við utanríkisráðuneyti Íslands. Samningurinn nær til kynningar- og fræðslumála á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og gildir til þriggja ára.

Framkvæmdastýrur UNICEF og Félags Sameinuðu þjóðanna undirrituðu við sama tilefni rammasamning við ráðuneytið.

„Rammasamningur sem þessi gerir það að verkum að UN Women á Íslandi getur sinnt starfi sínu með meiri fyrirsjáanleika, sem er okkur gríðarlega mikilvægt, ekki síst í ljósi þess mikla bakslags sem orðið hefur í jafnréttismálum um allan heim. Höldum við áfram á sömu braut verður jafnrétti ekki náð fyrr en eftir 300 ár. Rammasamningurinn sýnir jafnframt í verki hvar áherslur Íslands liggja í alþjóða-, þróunar- og jafnréttismálum og það er okkur hjá UN Women á Íslandi mikil hvatning í okkar starfi að finna fyrir stuðningi utanríkisráðherra. Við hlökkum til að styrkja enn frekar stoðir okkar góða samstarfs, með það að markmiði að gera heiminn betri fyrir okkur öll,“ sagði Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi við tilefnið.

Dýrmætur fyrirsjáanleiki

Utanríkisráðuneytið hefur um árabil átt í margþættu samstarfi við umræddar stofnanir og er markmið samninganna að auka þekkingu á þeim hnattrænu áskorunum sem eru til staðar og auka á gagnsæi og skilvirkni.

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, utanríkisráðherra, sagði samningana muna veita félögunum dýrmætan fyrirsjáanleika.

„Ísland á í fjölþættu samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og UN Women og UNICEF eru meðal okkar helstu áherslustofnana. Samningarnir munu veita félögunum dýrmætan fyrirsjáanleika sem auðveldar þeim skipulagningu verkefna. Þá er mjög mikilvægt að starfsemi stofnananna sé miðlað til almennings í gegnum félögin þrjú og fólk hvatt til að styðja við starfsemi þeirra,“ sagði utanríkisráðherra.

Related Posts