fbpx

Reynslusaga: „Get reiknað með 20 viðskipavinum á dag“

Heim / Dæmisögur / Reynslusaga: „Get reiknað með 20 viðskipavinum á dag“

Alice Ledu er flóttakona frá Suður Súdan sem er búsett í Bidi Bidi flóttamannabúðunum í Yumbe héraði í norður Úganda. Alice lauk endurmenntun á vegum UN Women í Úganda og hefur þannig tekist að koma undir sig fótunum að nýju. Aðgengi að menntun getur gjörbreytt lífi kvenna og stúlkna. Menntun eflir stúlkur, skapar atvinnutækifæri handa þeim og hefur að auki jákvæð áhrif á fjölskyldur þeirra og nærsamfélög. Árið 2022 voru 130 milljónir stúlkna um allan heim utan skóla, meirihluti þeirra er búsettur á átakasvæðum.  

Erfitt að spara þegar maður á ekkert

„Það er ekki nema ár síðan ég vaknaði hvern morgun full af kvíða og með mígreni. Á nóttunni lá ég andvaka og velktist yfir því hvernig ég gæti þénað pening næsta dag. Við sólarupprás var ég komin út í leit að launaðri vinnu, ýmist í búðunum sjálfum eða í bæjunum í kringum búðirnar. Svona hafði líf mitt verið hvern dag frá því í september 2016, þegar ég kom fyrst hingað á Svæði 2 í Bidi Bidi flóttamannabúðunum. Hér bý ég með manni mínum og börnum.

Án atvinnu og án peninga urðum við að reiða okkur á matarúthlutanir til flóttafólks, sem var til langs tíma mjög einhæft mataræði. Það var erfitt að nálgast helstu nauðsynjar og ég hafði ekki efni á munaðarvöru á borð við rúmföt fyrir fjölskyldu mína.

Ég sat námskeið sem átti að kenna okkur sparnað, en það er erfitt að spara þegar þú átt ekkert til að byrja með. Ég gat aðeins lagt örlítið til hliðar þá daga sem mér tókst að finna launaða vinnu. Þegar ég fékk greitt í peningum nýtti ég hluta þess í sparnað og restina til að kaupa helstu nauðsynjar fyrir fjölskylduna. En það er ekki hlaupið að því að komast yfir launaða vinnu hér í flóttamannabúðunum,“ segir Alice.

Lífið tók breytingum

„Líf mitt tók breytingum til batnaðar þegar UN Women og samstarfsaðili stofnunarinnar í búðunum sögðu að ég uppfyllti kröfur til að sækja um þátttöku í endurmenntunar verkefni á þeirra vegum. Ég sótti um til að læra veitinga- og hótelrekstur. Ég tók þátt í strangri þjálfun í þrjá mánuði og útskrifaðist með viðurkenningarskjal frá Viðskipta- og tækniráði Úganda sem heyrir undir mennta- og íþróttaráðuneyti landsins.

Í apríl 2022 opnaði ég veitingastaðinn God is Able sem staðsettur er á svæði 2 í Bidi Bidi búðunum. Ég framreiði hefðbundna rétti sem fólkið í búðunum þekkir. Ég get alltaf reiknað með að minnsta kosti tuttugu viðskiptavinum á dag.

Þjálfunin og viðkurkenningarskjalið hafa opnað ýmsar dyr sem áður voru lokaðar. Í upphafi árs kölluðu félagasamtök sem starfa í Bidi Bidi eftir tillögum frá einstaklingum sem gætu veitt ungmennum í búðunum einhverskonar starfsþjálfun innan veitingageirans. Ég skilaði inn tillögu og var valin til þess að veita 35 ungmennum þjálfun í veitingasölu, bakstri og hótelrekstri.“

Laus við kvíðann

„Áður en ég kom til Úganda, hafði ég lært til klæðskera en ég átti ekki saumavél til að nýta þá kunnáttu til að afla tekna. Með tekjunum úr veitingarekstrinum hef ég getað keypt tvær saumavélar og hef ráðið einn klæðskera til vinnu. Veitingastaðurinn minn selur aðeins morgun- og hádegismat, þannig ég hef getað nýtt kvöldin í saumaskap.

Líf mitt er allt annað núna. Ég hef nóg fyrir stafni og er laus við kvíðann sem olli mígreninu. Það fyllir mig hamingju að geta stuðlað að velferð fjölskyldu minnar með þessum hætti. Draumur minn er að menntað mig enn frekar í framtíðinni og útskrifast með gráðu í veitingaþjónustu svo ég geti stækkað fyrirtæki mitt og farið út í hótelrekstur samhliða veitingasölunni.“

Related Posts