fbpx

Ný skýrsla sýnir að kynferðisofbeldi var beitt 7. október

Heim / Fréttir / Ný skýrsla sýnir að kynferðisofbeldi var beitt 7. október

Sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um kynferðisofbeldi í átökum (e. UN Special Representative of the SG on sexual violence in conflict) hefur lokið við gerð skýrslu þar sem gerð er grein fyrir því kynferðislega ofbeldi sem átti sér stað þann 7. október.  

Pramila Patten, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra SÞ um kynferðisofbeldi í átökum, fór ásamt teymi sínu til Ísrael dagana 29.janúar til 14.febrúar til að afla gagna, greina gögn og sannreyna ásakanir um að kynferðislegu ofbeldi hafi verið beitt þann 7. október þegar Hamas og aðrar vígasveitir frömdu hryðjuverk í Ísrael.  

Skýrsla Patten var unnin með samþykki ísraelskra stjórnvalda, sem veittu teymi hennar aðgengi að um 5.000 myndum og yfir 50 klukkustundum af myndefni sem og öðrum gögnum er bera vitni um þá atburði sem áttu sér stað 7. október. Patten og teymi hennar fengu einnig leyfi til að ferðast til Vesturbakkans og afla upplýsinga um ásakanir um kynferðisofbeldi gegn Palestínufólki sem hefur verið í haldi ísraelskra stjórnvalda og af hendi landtökufólks.  

 Vísbendingar um kynferðislegt ofbeldi

Niðurstöður skýrslunnar eru þær að fyrirliggjandi gögn gefa sterklega til kynna að kynferðisofbeldi hafi átt sér stað á mörgum stöðum þar sem hryðjuverk voru framin þann 7. október, þar með taldar nauðganir og að minnsta kosti þrjár hópnauðganir. Í mörgum tilfellum var brotið á konum kynferðislega áður en þær voru drepnar.

Þá fundust lík kvenna sem höfðu verið afklædd að hluta eða með öllu og hendur þeirra bundnar. Það gefur til kynna að mögulega hafi einhvers konar kynferðislegu ofbeldi verið beitt í þeim tilfellum, þar á meðal ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð.  

Teymið telur þó að mun ítarlegri rannsókn þurfi að eiga sér stað ef gera á betur grein fyrir því ofbeldi sem átti sér stað þann 7.október. Sú rannsókn gæti tekið mánuði og jafnvel ár.  

 Heimsótti einnig Vesturbakkann

Sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra SÞ um kynferðisofbeldi í átökum heimsótti einnig Vesturbakkann til að afla gagna um ásakanir um kynferðisofbeldi gegn Palestínufólki af hendi ísraelskra hermanna og landtökufólks í kjölfar hryðjuverkanna 7. október.

Ásakanir eru uppi um grimmilega og vanvirðandi meðferð á Palestínufólki sem haldið var í ísraelskum fangelsum, þar með talið hótanir um nauðgun, þvinguð nekt í lengri tíma og á meðan verið er að flytja fólk á milli staða, að konum sé neitað um tíðarvörur og kynferðislega áreitni inni á heimilum fólks og við eftirlitsstöðvar. 

 Kallar eftir fullri rannsókn á atburðum

Patten kallar eftir því að ísraelsk stjórnvöld veiti Mannréttindafulltrúa Sameinuðu Þjóðanna aðgengi að Palestínu og Ísrael svo hægt sé að framkvæma rannsókn á þeim brotum sem framin hafa verið með það að markmiði að sækja gerendur til saka. Hún tekur einnig fram að ákveðnar takmarkanir hafi verið á vinnu við skýrsluna, svo sem sá stutti tími sem teymi hennar hafði til að afla gagna og að ekki hafi verið hægt að ræða við þolendur.  

UN Women á Íslandi tekur enn og aftur undir ákall Sameinuðu þjóðanna eftir vopnahléi og að öllum gíslum verði sleppt úr haldi.  

Lesa má skýrsluna í heild sinni hér: 20240304-Israel-oWB-CRSV-report.pdf (un.org) 

Related Posts