fbpx

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag, þann 8. mars

Heim / Fréttir / Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag, þann 8. mars

IWD 2024

 

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag en hann fer fram þann 8. mars ár hvert. Dagurinn var opinberlega viðurkenndur af Sameinuðu þjóðunum árið 1977, en á rætur sínar að rekja til verkalýðs- og femínistahreyfinga  í Evrópu og Norður-Ameríku snemma á 20. Öld. Á þessum degi er árangur kvenna í gegnum tíðina heiðraður samhliða því að vakin er athygli á jafnrétti kynjanna og þörfinni á baráttunni fyrir réttindum kvenna. 

Leiðarstef dagsins hjá UN Women í ár er ,,Fjárfestum í konum“ (e. Invest in Women) því að brýn þörf er á að fjárfesta í verkefnum sem snúa að konum og stúlkum. Undanfarin tvö ár hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt aukna áherslu á mikilvægi þess að aðildarríki, fjármálastofnanir, fyrirtæki og einstaklingar fjárfesti markvisst í konum undir slagorðinu: “Invest in women: Accelerate progress eða „Fjárfestum í konum. Flýtum fyrir framförum“. Enda er fjárfesting í jafnrétti efnahagslega mikilvæg öllum ríkjum ásamt því að vera mikilvæg út frá mannréttinda sjónarmiðum, en á heimsvísu er jafnrétti kynjanna enn stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í mannréttindamálum. 

Samkvæmt UN Women hafa núverandi hagkerfi haldið áfram að auðgast á kostnað jafnréttis og náttúruverndar og miðað við óbreytta stöðu er útlit fyrir að það muni taka þrjár aldir til að jafna hlut kynjanna. Konur eru enn 70% þeirra er búa við sárafátækt í heiminum, þær hafa aðeins um 64% þeirra lagalegu réttinda sem karlmenn hafa og þær eru í meirihluta þeirra sem vinna láglaunastörf. UN Women áætlar að fjárfesta þurfi 360 milljörðum Bandaríkjadala á ári til að koma jafnrétti á í heiminum. Það jafngildir um það bil 2/3 þeirrar upphæðar sem heimurinn eyðir árlega í kaffi og er það því í raun ekki svo há upphæð.  

 

Viðburðir um allan heim

Deginum er fagnað með ýmsum hætti um allan heim, en til að mynda stendur UN Women á Íslandi ásamt fleiri félögum fyrir kvennagöngu fyrir Palestínu. Gengið verður kl. 17:00 frá Arnarhóli að Kolaportinu þar sem haldinn verður baráttufundur, en viðburðinn má finna á Facebook. 

Alþjóðanefnd FKA og FKA New Icelanders standa fyrir listaverkauppboði á Gallerí Fold kl. 16:30 og mun ágóðinn renna til verkefna UN Women. Öll eru velkomin á uppboðið en frekari upplýsingar og skráning á viðburðinn er hér.

Kauphallarbjöllunni verður svo hringt seinnipartinn í Kauphöll Íslands, en sú hefð hefur skapast að hringja Kauphallarbjöllum víðsvegar um heiminn fyrir jafnrétti kynja þann 8. mars ár hvert. 

Þá verður viðburður í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í beinu streymi.

Á viðburðinum verður farið yfir stöðu jafnréttismála með áherslu á mikilvægi þess að fjárfesta í konum, ásamt því að haldið verður upp á þá áfanga sem náðst hafa í réttindum kvenna. Viðburðurinn er öllum opinn.

Til hamingju með daginn!

 

Baráttukveðjur,

Starfskonur UN Women á Íslandi

Related Posts