„Ég get gert hvað sem ég vil“

Home / Dæmisögur / „Ég get gert hvað sem ég vil“
Fimmta hvert barn sem fæðist í Brasilíu er borið af móður undir 19 ára aldri. Þetta veldur því að stúlkur eru sex sinnum líklegri til að hætta í námi og íþróttum en karlkyns jafnaldrar þeirra. Árið 2015 voru ¾ mæðra á aldrinum 15-17 ekki skráðar í skóla.

Fyrir ári síðan sat hin 19 ára gamla Dayane Santos í sal með litla barnið sitt þar sem leiðtogaþjálfun á vegum UN Women var kynnt. Leiðtogaþjálfunin miðar að því að valdefla stúlkur og ungar mæður úr fátækum hverfum í gegnum íþróttir, sjálfsstyrkingu og fræðslu í fjármálalæsi. Dayane hafði hætt í skóla og blaki þegar dóttir hennar fæddist og þurfti að horfast í augu við það að tækifærin yrðu fá fyrir hana og barnið í heimabæ hennar Pedra de Guaratiba, einu af fátækustu hverfunum í vesturhluta Ríó.  Hún sat fyrirlesturinn til enda og skráði sig strax til leiks.

„Í leiðtogaþjálfuninni fengum við tækifæri til að ræða okkar á milli í fullri hreinskilni hvernig það er að vera ung móðir. Það sem er dýrmætast fyrir mig er að ég lærði að verða ég sjálf aftur. Ég áttaði mig á því að ég get gert allskonar hluti samhliða móðurhlutverkinu og þarf ekki að kyrrsetja mig heima.“

Eftir árs þátttöku í verkefninu hefur Dayane nú þegar lokið menntaskóla, er í fullu starfi og hún og maki hennar skipta heimilisstörfunum jafnt á milli sín. Hún spilar blak tvisvar í viku og stefnir á að læra geislafræði. „Leiðtogaþjálfun UN Women veitti mér nægilegt sjálfstraust til að átta mig á því að ég get gert hvað sem ég vil“

Verkefnið hefur náð miklum árangri þegar kemur að því að skapa raunveruleg tækifæri fyrir stelpur sem hafa hingað til ekki átt möguleika á þeim. Af þeim 850 stúlkum sem sóttu sér leiðtogaþjálfun á tilraunastigi hennar hafa segja langflestar líf sitt vera gjörbreytt.

Nú er komið að næsta áfanga áætlunarinnar en á tímabilinu 2018-2020 verður lögð áhersla á að fara í samstarf við fleiri stofnanir með það að markmiði að gera námskránna enn fjölbreyttari.

 

Með kaupum á þessari gjöf veitir þú 11 unglingsstúlkum í Brasilíu leiðtogaþjálfun.

Related Posts