fbpx

Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur

Heim / Fréttir / Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur

UN Women á Íslandi frumsýnir nýtt myndband til að vekja karlmenn og stráka sérstaklega til vitundar um að beita sér gegn ofbeldi gegn konum og fordæma kynbundið ofbeldi.

Burðarefni átaksins er myndband sem tólf karlmenn taka þátt í ásamt hugrakkri konu sem lánar átakanlega sögu sína af grófu ofbeldi sem hún var beitt. Karlmennirnir mættu í stúdíó til að leggja átakinu lið með því að lesa upp frásagnir kvenna af kynbundnu ofbeldi frá ólíkum löndum. Sögur kvennanna koma frá Víetnam, Úsbekistan, Gambíu, Mjanmar og Íslandi. Það sem þeir ekki vissu var að ein kvennanna yrði á staðnum.

UN Women á Íslandi fer vísvitandi ögrandi leið til að hreyfa við karlmönnum og strákum í þeirri von að þeir setji sig í spor þolenda. Síðast en ekki síst þá hafa konur hingað til fyrst og fremst rutt brautina og leitt baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. MeToo byltingin sannar að það er ekki nóg. Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi er ekki einkamál kvenna.

Lýsingar kvenna af kynbundnu ofbeldi og áreitni í krafti MeToo hafa hreyft við fólki. Konur eiga alls staðar á hættu að vera beittar kynbundnu ofbeldi og áreitni, hvort sem er á eigin heimili, á vinnustað, í íþróttum, á skemmtistöðum, eða einfaldlega á götum úti. Skyndilega erum við farin að taka umræðu sem samfélagið hefur ekki verið tilbúið til að taka. En „hvað eigum við að gera?“ er spurt í framhaldi. „Hvernig getum við breytt þessari rótgrónu og fjandsamlegu menningu í garð kvenna?“ „Hvað eiga karlmenn að gera við þessar upplýsingar?“ „Hvað svo?“

Stórt er spurt. En samt ekki.
  • Gríptu inn í aðstæður ef þú verður vitni af kynferðislegu ofbeldi og áreitni
  • Taktu samtalið ef þú þekkir nákominn geranda og hvettu hann til að leita sér hjálpar
  • Segðu frá og útvegaðu stuðning þegar þú verður vitni að kynbundnu ofbeldi og áreitni
  • Hringdu á lögreglu ef grunur liggur á um heimilisofbeldi
  • Tilkynntu stafrænt ofbeldi og netníð sem þú verður vitni að

Taktu þátt og fordæmdu kynbundið ofbeldi í nafni allra kvenna hér.

Related Posts