fbpx

CSW67: Farandverkakonur þurfa betra aðgengi að tækni

Heim / Fréttir / CSW67: Farandverkakonur þurfa betra aðgengi að tækni

Hliðarviðburður Evrópuráðsins og Fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum fór fram þann 7. mars í tengslum við 67. Kvennanefndarfund Sþ (CSW) sem nú fer fram í New York. Viðburðurinn bar yfirskriftina „Responding to regional and global challenges – Protecting the rights of migrant, refugee and asylum-seeking women and girls” og sett Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands fundinn.

Annað framsögufólk voru Sergiy Kyslytsya fastafulltrúi Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum og formaður framkvæmdastjórnar UN Women, Iris Luarasi meðlimur Evrópuráðsins, Pär Liljert hjá Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninni Sþ (IOM), Leyla Kayacik hjá Evrópuráðinu, Jemimah Njuki hjá UN Women og Alyssa Ahrabare hjá félagasamtökunum European Network of Migrant Women. Fundarstjóri var Marja Ruotanen frá Evrópuráðinu.

Katrín Jakobsdóttir flutti opnunarræðu viðburðarins.

Megininntak viðburðarins var hvernig stuðla megi að velferð og öryggi kvenna og stúlkna sem eru á flótta eða á faraldsfæti vegna vinnu. Í upphafsræðu sinni sagði Katrín Jakobsdóttir að ekki sé lengur hægt að kalla jafnréttismál „mjúk mál“, því ekkert sé harðara en veruleiki kvenna og stúlkna á flótta. Hún sagðist jafnframt vonast til þess að viðburðurinn yrði vettvangur hugmyndaskipta og úrlausna svo þessi hópur kvenna geti fullnýtt hæfileika sína í móttökuríki: „Réttindi þessa hóps verða aðeins áunnin með breiðri samstöðu,“ sagði hún í ræðu sinni.

UN Women nýtir tæknilausnir til að efla konur á flótta

Sergiy Kyslytsya, fastafulltrúi Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum og formaður framkvæmdastjórnar UN Women, ræddi stöðu úkraínskra kvenna og stúlkna á flótta. Átta milljónir hafa flúið stríðið í Úkraínu frá því að það braust út fyrir ári, meirihluti þeirra eru konur og börn. UN Women hefur verið starfandi í Úkraínu um nokkra hríð og að sögn Kyslytsya hefur stofnunin m.a. nýtt tækni sem tól til að bæta stöðu úkraínskra kvenna á flótta.

Konur sem misst höfðu vinnu gátu sótt netnámskeið á vegum UN Women og höfðu alls 50 þúsund konur nýtt sér þann möguleika í upphafi þessa árs og hlotið færni í að skapa sér atvinnumöguleika í kjölfarið. Þá starfaði UN Women með 20 úkraínskum félagasamtökum til að tryggja að konur og stúlkur á flótta hefðu aðgengi að matvælum, sæmdarsettum, lögfræðiþjónustu og sálrænni aðstoð.

Reglur og lög veikja stöðu farandverkakvenna

Iris Luarasi ræddi inntak Istanbúl sáttmálans, samnings um forvarnir og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi sem samþykktur var af Evrópuráðinu árið 2011. Sáttmálinn er bindandi samningur sem tekur á baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og kveður á um skyldur stjórnvalda í þeim efnum. Luarasi segir inntak sáttmálans eiga við um allar konur, óháð uppruna þeirra eða stöðu. Sáttmálinn kveði á að ekki megi nota menningu, trú eða hefðir til að réttlæta mismunun og ofbeldi gegn konum og stúlkum og að taka þurfi til greina viðkvæma stöðu kvenna og stúlkna á flótta og þeirra sem eru í leit að atvinnu.

Jemimah Njuki, frá UN Women, ræddi þær áskoranir sem farandverkakonur (e. Migrants) standa frammi fyrir þegar þær ferðast á milli ríkja í leit að atvinnu. Flestar eiga erfitt með að komast inn á almennan vinnumarkað sökum stöðu sinnar og starfa því margar í „svarta hagkerfinu“.

Innflytjendalög í Evrópu og víðar gera lítið til að styrkja stöðu farandverkakvenna, þvert á móti styðja lögin við áframhaldandi mismunun og veikja stöðu þessara kvenna enn frekar. Margar neyðast stöðu sinnar vegna að taka að sér illa launuð störf, með takmörkuðu atvinnuöryggi. Margar eru útsettar fyrir kynbundnu ofbeldi á vinnustað vegna stöðu sinnar.

Njuki snerti jafnframt á mikilvægi tækninnar þegar kemur að því að styrkja stöðu farandverkakvenna. Hinn mikli kynjamismunur sem ríkir enn þegar kemur að netaðgengi þýðir að margar þessara kvenna eiga erfitt með að afla sér upplýsinga og hafa takmarkað aðgengi tækni. Betra aðgengi að upplýsingum getur styrkt stöðu farandverkakvenna til muna. Njuki sagði Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna vera einn mikilvægasta vettvang heims þegar kemur að jafnréttismálum og á að geta skilað kynjuðum lagabreytingum meðal aðildarríkja sem munu bæta líf og öryggi allra kvenna, óháð kynhneigð og stöðu.


Alþjóðlegt samstarf skortir

Alyssa Ahrabare hjá félagasamtökunum European Network of Migrant Women tók undir orð Njuki um að meira tæknilæsi geti styrkt stöðu farandverkakvenna og auðveldað aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu, menntun og upplýsingum um lagaleg réttindi sín. Á sama tíma sé netið einn hættulegasti staðurinn fyrir konur og stúlkur að vera á. Einkum í kjölfar COVID-19 þegar mansal færðist að miklu leyti yfir á starfræna miðla.

Félagasamtökin European Network of Migrant Women hafa unnið að því að auka tæknilæsi farandverkakvenna og kvenna á flótta. Þau hafa veitt þeim þjálfun í notkun stafrænna miðla og framkomu svo þær geti sjálfa komið fram og talað sínu máli á opinberum vettvangi, svo sem á Evrópuþinginu. Með þeim hætti er hægt að koma í veg fyrir að málefni farandverkakvenna og kvenna á flótta falli á milli stafs og hurðar.

Mikilvægast af öllu, segir Ahrabare, er þó að innleiða gildandi samninga á borð við Istanbúlsáttmálann og efla gagnasöfnun. „Við eigum góðar áætlanir um hvernig megi berjast gegn kynbundnu ofbeldi og auka öryggi kvenna. En þær eru ekki innleiddar. Það þarf að vera sameiginlegt átak í því að uppræta starfræna kynferðisglæpi því slíkir glæpir eru aðgengilegir öllum, óháð landamærum. Svo er mikilvægt að gögn séu til staðar ef það á í alvöru að bæta stöðu þessara kvenna. Án þeirra er ekki hægt að átta sig á vandanum og bregðast sem best við honum,“ sagði Ahrabare.

 

Related Posts