fbpx

CSW67: Samtalið færir okkur áfram, ekki stríð

Heim / Fréttir / CSW67: Samtalið færir okkur áfram, ekki stríð

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi er hluti af íslensku sendinefndinni sem sækir 67. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram í New York. Fundurinn er gríðarlega mikilvægur vettvangur fyrir þróun jafnréttismála í heiminum í dag.

UN Women á Íslandi náði tali af Stellu og bað hana um að útskýra af hverju Kvennanefndarfundarinn er jafn mikilvægur og hann er fyrir stöðu jafnréttis í heiminum.

Af hverju er viðburður á borð við Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna mikilvægur?

„Ég myndi segja að Kvennanefndarfundur SÞ sé gríðarlega mikilvægur. Þetta er vettvangur þar sem aðildarríki og frjáls félagasamtök koma saman til þess að ræða jafnréttismálin og hvað er efst á baugi. Við höfum ekki komið saman núna í nokkur ár vegna Covid, þannig að þessi fundur í ár er sérstakalega mikilvægur myndi ég segja. Á þessum tíma síðan við héldum síðasta fund í persónu hefur mikið gerst og mikið breyst í jafnréttismálum.

„Við erum að sjá gríðarlegt bakslag varðandi réttindi kvenna, þar sem löngu fengin réttindi eru tekin af þeim og við sjáum það útum allann heim: Í vestrænum heimi og í fátækari löndum heims. Við sjáum hvað er að gerast í Afghanistan, Íran, Úkraínu, þetta eru allt staðir þar sem konur verða hvað verst úti og í raun er verið að útiloka þær úr samfélögum um allann heim. Þannig þetta skiptir rosalega miklu máli að öll þessi aðildaríki, frjáls félagasamtök og alþjóðastofnanir komi saman og ræði þessi mál og hvað við getum gert til að þoka hlutunum áfram. Hvað getum við lært af hvort öðru og hvað getum við bætt.“

Er erfitt að ræða jafnréttismál á alþjóðavettvangi þegar skoðanir og sjónarmið eru svo ólík á milli aðildarríkja?

„Það getur verið mjög erfitt að ræða þessi mál á alþjóðavettvangi því það að það er ekkert jafn umdeilt og líkamar kvenna og réttindi kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Þetta er mikið hitamál og erfitt að ræða, sérstaklega þegar við erum með 193 aðildarríki SÞ sem koma saman í Sameinuðu þjóðunum og ræða þessi mál. Sum hver vinna gegn jafnréttismálum og það er þeirra  afstaða að vinna gegn jafnréttismálum. Svo erum við með önnur aðildarríki sem eru alveg í hina áttina og vinna að framþróun og mannréttindum og að réttindi allra séu virt og þar hefur Ísland staðsett sig að vera fremst í flokki og hafa áhrif. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Þannig já, ég myndi segja að það væri erfitt og við eigum eftir að finna það á þessum fundi að það eru allskonar átök í gangi um þennann málaflokk, sem er samt svo mikilvægur.

„Við sátum fund núna í morgun um Afganistan, ótrúlega áhrifaríkan fund, og ég fann hversu sterkt er verið að leita eftir því að við gleymum ekki þessum konum sem um allann heim eru að berjast fyrir að halda lífi. Það var talað um það á fundinum í morgun að konur og stúlkur í Afganistan eiga ser ekkert líf, það er bara búið að ramma þær inn í fangelsi og þær geta ekkert gert. Alþjóðasamfélagið verður að hlusta og reyna að gera það sem það getur til að fá þessar raddir upp á yfirborðið og þetta er svo sannarlega vettvangurinn til þess.

„Þó við tölum oft um Sameinuðu þjóðirnar að erfitt sé koma hlutum í gegn, hér sé mikil bjúrókrasía og skrifræði en þetta er eini staðurinn í heiminum sem við komum saman, ræðum hlutina, komumst að niðurstöðu og færum hlutina áfram. Ef við hefðum ekki Sameinuðu þjóðirnar, þá myndum við ekki ná málum áfram. Þó að það sé erfitt, þá samt mjakast hlutirnir áfram. Við verðum að geta talað saman, því samtalið það færiri okkur áfram. Ekki stríð og ófriður. Það er samtalið og það gerist hér.“

Hægt er að horfa á viðtalið hér að neðan.

Related Posts