fbpx

CSW67: Taka þarf á hinu ofbeldisfulla interneti

Heim / Fréttir / CSW67: Taka þarf á hinu ofbeldisfulla interneti

Norræna ráðherranefndin í samstarfi við lettnesk stjórnvöld stóðu fyrir afar áhugaverðum viðburði í tengslum við Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna, CSW67. Viðburðurinn bar yfirskriftina: „The abusive internet: Nordic and Baltic ways to prevent gender based violence“ og fjallaði um þær aðgerðir sem norðurlöndin og baltnesku ríkin hafa ráðist í til að taka á stafrænu kynbundnu ofbeldi.

Anette Trettebergstuen, jafnréttis- og menningarmálaráðherra Noregs flutti opnunarræðu viðburðarins. Framsögufólk voru María Rún Bjarnadóttir sérfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra, Iluta Lāce framkvæmdarstýra MARTA miðstöðvarinnar í Lettlandi, Kari Helene Partapuoli framkvæmdarstýra Plan International í Noregi, Tuija Saresma prófessor við Háskólann í Jyväskylä, Christian Mogensen sérfræðingur hjá Denmark’s Tech og Christian Veske Gender Equality and Equal Treatment Commissioner frá Eistlandi. Karen Ellemann, aðalframkvæmdarstýra Norrænu ráðherranefndarinnar fundarstýrði.

Skortir fjármagn til rannsókna

Viðburðurinn fjallaði í stuttu máli um hætturnar sem fylgja stafrænni tækni, hatursorðræðunni sem þar hefur viðgengist og þær aðgerðir sem ríkin hafa ráðist í til að tryggja öryggi kvenna og stúlkna á netinu. María Rún, lögfræðingur og verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra, sagði ríkinu skylt að standa einnig vörð um réttindi kvenna á netinu. Hún sagði ekki hægt að vinna bug á vandanum nema með aðkomu stjórnvalda og þar þurfi stjórnmálafólk að taka forystu. Hún sagði nauðsynlegt að tryggja fjármuni í þennan málaflokk svo hægt sé að rannsaka vandann og vinna að lausnum.

„Það þarf fjármagn í rannsóknir og nýsköpunarverkefni sem vinna að því að vernda konur og stúlkur gegn ofbeldi. Af hverju ætti það ekki að vera hægt? Alveg eins og við setjum fjármagn í að koma fólki út í geiminn?“ spurði hún áheyrendur.

Aukið stafrænt ofbeldi gegn konum og börnum

Iluta Lāce og Kari Helene Partapuoli sögðu netið vera vettvang ofbeldis og kynferðislegs áreitis bæði gegn konum og börnum. Mikilvægt sé að bregðast strax við vandanum. Þá gerir aukin netnotkun barna það að verkum að auðveldara er fyrir glæpafólk að nálgast þau og „grooma“.

Partapuoli sagði nýja rannsókn hafa leitt í ljós að 6 af hverjum 10 stúlkum hafa orðið fyrir stafrænu kynbundnu ofbeldi eða áreitni. Margar eru farnar að setja sér þröngar skorður á netinu og ritskoða sjálfa sig í von um að koma í veg fyrir ofbeldi og áreiti. Þetta, segir hún að ógni lýðræði ríkja, því lýðræði krefjist fullrar þátttöku allra borgara.

„Stúlkur verða að vera nettengdar. Þær verða að geta nýtt netið til náms og vinnu, ef ekki, þá takmarkar það mjög framtíðarmöguleika þeirra. Ungar stúlkur í dag upplifa meiri kynferðislega áreitni á netinu en þær gera í raunheimum. 6 af hverjum 10 stúlkum hafa orðið fyrir stafrænu kynbundnu ofbeldi eða áreitni. Það skiptir máli að við skiljum þennan nýja vettvang og til þess að skilja hann þurfum við tölur og gögn. Aðeins þannig getum við brugðist við vandanum,“ sagði hún.

Opinbert starfsfólk á ekki að stunda hatursorðræðu

Tuija Saresma, prófessor við Háskólann í Jyväskylä í Finnlandi, hefur stundað rannsóknir á hatursorðræðu. Sjálf hefur hún orðið fyrir ítrekuðum hótunum og persónuárásum á netinu vegna starfa sinna sem kynjafræðingur. Hún segir hatursorðræðu gegn konum sem taka pláss í hinu opinbera rými vera alvarlegt mál og mikið áhyggjuefni. Hún tók undir orð Partapuoli og sagði hatursorðræðu gegn konum sem taka pláss, veri það stjórnmálakonur, aktívistar eða femínistar, ógna lýðræðinu. Samvinnu þurfi milli ólíkra aðila til að vinna á vandanum.

„Stjórnmálafólk þarf að gagnrýna hatursorðræðu sem þrífst á netinu og það þurfa að vera til reglugerðir og leiðarvísir fyrir opinbera embættismenn um hvernig þeir megi haga sér á netinu. Stjórnmálafólk á ekki að vera þátttakandi í hatursorðræðu gegn konum og hinsegin fólki og á ekki að dreifa falsfréttum. Það er vaxandi andfeminísk hægristefna í heiminum, líka í Finnlandi og það þarf að taka á þessu strax,“ sagði hún.

Karlar verða að taka þátt

Christian Mogensen sagði stóru samfélagsmiðlana bera mikla ábyrgð í þessum efnum, þeir hafi leyft kvenhatri að grassera óáreitt að mestu. Mogensen er höfundur rannsóknarinnar „The Angry Internet“ sem skoðar kvenhatur á internetinu og karlana sem dreifa því. Hann sagði karla verða að taka virkari þátt í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi bæði í raunheimum og í netheimum, enda séu þeir sem beita ofbeldinu.

„Ef maður sest niður og og ræðir við þessa einstaklinga sem dreifa kvenhatri á netinu, kom í ljós að þeim leið illa, upplifðu sig hliðsetta og vinalausa. Þeir þjást líka vegna hugmyndanna um karlmennsku og feðraveldisins, alveg eins og konur. Hvað er það að vera karlmaður? Samkvæmt hugmyndum okkar um karlmennsku er það að vera ekki þú sjálfur. Því miður búum við í heimi þar sem karlmenn vilja frekar taka eigið líf en að sækja sér faglega aðstoð og vilja frekar meiða konur en að líða illa.“

Christian Veske sagðist kunna illa við að ræða þessi mál sem baráttu „því í bardagi er sigurvegari og sá sem tapar. Þegar kemur að kynbundnu ofbeldi er enginn sigurvegari því þolendur og gerendur tapa báðir ef ekkert breytist.“ Hann kveðst hafa miklar áhyggjur af því hvernig starfrænt ofbeldi hefur verið málað upp sem „playful violence“ og kallaði, líkt og annað framsögufólk, eftir betri og skilvirkari aðgerðum til að taka á vandanum.

 

Related Posts