fbpx

CSW67: Tæknin skapar lausnir og hindranir fyrir stúlkur

Heim / Fréttir / CSW67: Tæknin skapar lausnir og hindranir fyrir stúlkur

Chanel Björk Sturludóttir er framkvæmdastýra samtakanna Hennar Rödd sem hafa það að markmiði að auka vitund meðal almennings á stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Chanel er hluti af íslensku sendinefndinni sem sækir 67. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna, sem fram fer í New York þessa vikuna.

UN Women á Íslandi náði tali af Chanel og spurði hana út í þá viðburði sem hún hefur sótt og það sem hefur staðið upp úr að hennar mati.

Hvaða viðburð varst þú að sækja?

„Ég var á viðburði sem heitir Rewiring the Network: Digital education for girls´ and women‘s empowerment. Margir mismunandi samstarfsaðilar komu að þessum viðburði, meðal annars Ítalía og UNESCO og hann fjallaði í raun um hvernig er hægt að nýta tæknina til þess að auka aðgengi kvenna og stelpna að menntun. Ég fór einmitt á viðburð í gær þar sem ég heyrði mjög sláandi tölur. Ég held að það séu yfir 100 milljónir stelpna í heiminum sem hafa ekki aðgengi að menntun. Þess vegna vildi ég sækja þennan viðburð til að heyra hvaða lausnir eru kannski til staðar til þess að bæta þessar aðstæður.

Var eitthvað sem fram kom á fundinum sem fékk þig sérstaklega til að staldra við og hugsa?

„Mér fannst áhugavert það sem mörg í panelnum komu inn á: Tæknin býður bæði upp á lausnir og möguleika en skapar líka hindranir. Og það er kannski einmitt út af þessum hröðu breytingum í tæknigeiranum að konur og stelpur hafa orðið eftir í tækniþróun. Það eru bæði þessar staðalímyndir sem koma í veg fyrir að stelpur sæki í tæknigreinar og það veldur því að tækniheimurinn og tækniframfarirnar eru þá ekki búnar til með konur og stelpur í huga.

Svo fannst mér líka mjög áhugavert það sem mörg í panelnum komu inn á varðandi aðgengi að tækni. Ég held að fyrir forréttindapésa frá Íslandi þá pæli maður svo lítið í þessu.  Það eru alls ekki öll í heiminum sem hafa aðgang að síma eða tölvu. Þau voru mörg að tala um hvaða verkefni eru núna í gangi til þess að auka aðgengi stelpna og kvenna sem búa á dreifbýlum svæðum. Þar er aðgengi að tækni mjög lítið í rauninni. Þetta var kannski það helsta sem stóð upp úr fyrir mér.

Eitt sem þau komu líka inn á, er að það er ekki nóg að búa til „content“ og setja það á netið eða gefa konum sem búa í sveit síma eða tölvu. Það er ekki nóg. Það þarf að vinna með þessum hópum og þess vegna er einmitt svo mikilvægt að það séu fleiri konur og stelpur í tæknigeiranum yfir höfuð.“

Er mikilvægt að ungt fólk taki þátt í viðburði sem Kvennanefndarfundi SÞ og af hverju?

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé ungt fólk hér á CSW. Þetta er í fyrsta skipti sem Hennar rödd er með meðlim hér á ráðstefnunni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hér sé mikill fjölbreytileiki meðal þeirra sem sækja viðburðinn: Fjölbreytileiki þegar það kemur að því frá hvaða löndum fólk kemur, hvað félagslegar aðstæður varðar og fjölbreytileika líka í aldri. Við erum öll þátttakendur í lýðræðissamfélögum þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að mismunandi raddir komist á framfæri.“

Hægt er að horfa á myndbandið í heild hér að neðan.

Related Posts